Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Örlög Netanyahu í höndum Ísraela í dag

17.09.2019 - 04:36
epa07844486 Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu gestures during a weekly cabinet meeting in the Jordan Valley, in the Israeli-occupied West Bank, 15 September 2019.  EPA-EFE/AMIR COHEN / POOL
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Kjörstaðir voru opnaðir í Ísrael klukkan sjö í morgun að staðartíma, þegar klukkan var fjögur í nótt hér á landi. Þar fær þjóðin að kjósa til þings í annað sinn á fimm mánuðum. Niðurstaða síðustu kosninga leiddi til flókinnar stöðu á ísraelska þinginu. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra, og Likud-bandalagi hans tókst ekki að mynda ríkisstjórn.

Talið er líklegt að svipuð pattstaða verði uppi á teningnum þegar búið verður að telja upp úr kjörkössunum. Blá-hvíta bandalagið, með fyrrverandi hershöfðingjann Benny Gantz í fararbroddi, er líklegast til að veita Likud samkeppni um að verða stærsti flokkurinn á þinginu. Samkvæmt könnunum eru flokkarnir hnífjafnir.

Gantz vill að rannsókn verði gerð á mögulegri spillingu Netanyahu í embætti. Hann er sakaður um að hafa þegið fjölda dýrra gjafa frá þjóðhöfðingjum og auðjöfrum. Á móti er talið að ef Netanyahu tekst að tryggja sér forsætisráðherrastólinn að nýju, og þar með þingmeirihluta, eigi hann eftir að sækjast eftir friðhelgi frá málsókn. Að sögn AFP fréttastofunnar áformar ríkissaksóknari Ísraels að stefna Netanyahu fyrir spillingu snemma í október.