Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Örlög bensínstöðva á rafbílaöld

01.05.2019 - 07:21
Bensínstöð í myrkri
Mynd úr safni. Mynd: Stocksnap.io
Bensíndælum í Reykjavík verður fækkað um helming til ársins 2030 og árið 2040 verða þær að mestu horfnar, gangi loftslagsáætlun borgarinnar eftir. Olíufyrirtækin hafa breytt áherslum í rekstri, meðal annars til að búa sig undir orkuskiptin.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, setti á síðasta ári af stað útfærslu á þessum lið loftslagsáætlunar borgarinnar, sem snýr að fækkun bensínstöðva. Fulltrúar umhverfis- og skipulagssviðs, borgarlögmanns og skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar koma að verkefninu og hafa meðal annars fundað með fulltrúum olíufélaganna. Tillögur að regluverkinu og næstu skrefum verða kynntar borgarráði á næstu dögum.

Rafbílar eru helmingur nýskráðra bíla í Noregi. Orkuveita Reykjavíkur spáir því að árið 2030 verði hlutfallið hér á landi svipað og þar. Mikil áhersla er lögð á orkuskipti í samgöngum í loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar og er stefnt að því að nýskráning bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði bönnuð árið 2030, með nokkrum undantekningum þó.

Lóðir bensínstöðva nýttar til að þétta byggð

Hvað verður um allar bensínstöðvarnar ef þessar spár ganga eftir?Olíufyrirtækin eru vel meðvituð um þá stefnu Reykjavíkurborgar að fækka bensínstöðvum. Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, segir að bensínstöðvarnar séu oft vel staðsettar og að markmið borgarinnar sé að nýta hluta þeirra lóða til að þétta byggð. „Það er ljóst að bensínstöðvum á eftir að fækka með tímanum og hlutverk þeirra breytist að einhverju leyti. Sömu þróun má líka sjá í nágrannasveitarfélögum borgarinnar. Það verður að þjóna fólkinu sem þarf þennan orkugjafa næstu tvo áratugina, hið minnsta.“ Jón Ólafur segir ljóst að mikill meirihluti rafbíla verði hlaðinn við heimahús. Bensínstöðvum í þéttbýli eigi því eftir að fækka. Hann telur að þær eigi samt sem áður eftir að gegna mikilvægu hlutverki. 

Mynd með færslu
Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís. Mynd: Pipar

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festar, sem á N1, segir alveg ljóst að N1 eigi eftir að fækka bensínstöðvum á næstu árum. Þá séu staðsetningar bensínstöðva fyrirtækisins góðar og geti því vel nýst fyrir ýmsa aðra starfsemi en sölu á jarðefnaeldsneyti. Fyrirtækið hafi selt metan síðan um aldamót og bjóði upp á rafhleðslu á þjóðvegi 1. Eggert segir að fyrirtækið hafi brugðist við breyttum tíðaranda og ætli að halda því áfram. 

Breyttar áherslur á tímum orkuskipta

Olís og Hagar runnu saman í eitt fyrirtæki í fyrra og segir Jón Ólafur að það hafi verið hluti af endurskipulagningu til framtíðar, meðal annars vegna orkuskiptanna. Undir Högum eru nú, auk Olís, Bónus, Hagkaup, Ferskar kjötvörur, Bananar ehf., Hýsing, Aðföng, Zara og Útilíf. „Þjónustuþættir hafa verið að þjappast saman og við hjá Olís höfum verið að færa okkur meira í að bjóða upp á skyndibita.“

Mynd með færslu
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1. Mynd:

Eru fylgjandi orkuskiptum í samgöngum

Stjórnendur N1 telja markmið stjórnvalda, að minnka stórlega notkun á jarðefnaeldsneyti, af hinu góða og þau styðja það, að sögn Eggerts Þórs. N1 keypti Festi á síðasta ári. Undir Festi eru nú, auk N1, ELKO, Krónan, Bakkinn og Festi Fasteignir. „Allt þetta er hluti af stefnumótun félagsins að umbreyta olíufélaginu N1 úr olíufélagi í eignarhaldsfélag sem sérhæfir sig í rekstri framúrskarandi fyrirtækja í smásölu á Íslandi,“ segir hann aðspurður um þær breytingar sem gerðar hafa verið hjá N1 vegna fyrirhugaðra orkuskipta hér á landi.

Stjórnendur olíufélaga rýna í framtíðina

Jón Ólafur segir að stjórnendur Olís séu með hugann við hnattræna hlýnun. Þau reyni að rýna í framtíðina og fylgjast með nýjustu stefnum í þróun rafbíla. Þau vilji leggja sitt af mörkum en ráði ferðinni ekki ein. „Auðvitað er Ísland „fyrirmyndar-tækifæri“ og spennandi kostur og það verður spennandi að sjá hvernig þessi mál þróast hér á landi. Við tökum þátt í því og þurfum að laga okkur að nýrri tækni og reynum að máta okkur inn í það.“

Sala á jarðefnaeldsneyti hefur ekki minnkað

Þrátt fyrir fjölgun rafbíla hefur sala á jarðefnaeldsneyti ekki dregist saman hjá N1. Ferðamönnum hefur fjölgað mikið undanfarin ár og þeir aka margir um landið á bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. 

Jón Ólafur segir að Olís bjóði upp á þá orkugjafa sem eftirspurn sé eftir hverju sinni og að til þessa hafi það verið jarðefnaeldsneyti. „Við gerum okkur grein fyrir annmörkum jarðefnaeldsneytis og áhrifum þess á umhverfið. Nú eru fleiri rafmagnsbílar og við erum að reyna að mæta þörfum markaðarins á hverjum tíma,“ segir hann. Þrátt fyrir að það takist að fækka bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti á Vesturlöndum óttast hann að á fátækari svæðum heims verði það enn notað. „Og það verður stór áskorun fyrir heiminn allan.“ 

Meirihluti nýskráðra bíla gengur fyrir jarðefnaeldsneyti

Bílar sem hægt er að láta ganga fyrir öðru en jarðefnaeldsneyti voru samtals 21,7 prósent nýskráðra bíla í mars síðastliðnum. Nánar má sjá skiptinguna hér fyrir neðan.