Örlítið stigið á bremsuna með vaxtahækkuninni

13.11.2018 - 08:12
Mynd: Skjáskot / RÚV
Gylfi Zoega hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands og fulltrúi í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands segir að með hækkun stýrivaxta Seðlabankans um 0,25 prósent hafi aðeins verið að snerta bremsuna og gefa til kynna að stigið yrði kröftuglega á hana ef horfur versnuðu.

Gylfi ræddi nýlega hækkun á Morgunvaktinni á Rás 1.  Hann sagði að peningastefnan væri eins konar áhættustjórnun: 

„Við viljum ekki að eitthvað slæmt komi fyrir. Og á hverjum tíma verðum við að hugsa, ja, hvað er nú það versta sem gæti komið fyrir núna þessar vikurnar og mánuðina. Það versta sem gæti komið fyrir er að þessi erfiðleika í flugrekstri, hærra olíuverð á heimsmarkaði, sem gerir flug hingað dýrara, og ótti um kjarasamninga, sem væru óraunhæfir. Allt þetta leggist á eitt um það að einhverjir fjárfestar vilji fara út úr krónunni og segja: þarna vil ég ekki vera af því að það er eitthvað slæmt að gerast. Það þýðir að krónan lækkar, sem þýðir að verðlag hækkar, verðbólgan mælist meiri, sem hjálpar svo ekki á vinnumarkaði,“ segir Gylfi.  

Til að lágmarka þessa áhættu hafi verið stigið þetta skref til að gera krónuna aðeins eftirsóknarverðari og stíga örlítið á bremsuna. Hagkerfið sé enn í góðum vexti. „Við erum ekki í kreppu og ekki vísbendingar um að það sé að koma kreppa. Svo að það var aðeins verið að snerta bremsuna þarna og gefa í skyn að ef að þarf að þá verður stígið kröftuglega á hana til þess að koma í veg fyrir að verðbólga fari vaxandi.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi