Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Örlagavaldur í tónlistarlífi Íslendinga

Mynd: RÚV / RÚV

Örlagavaldur í tónlistarlífi Íslendinga

04.03.2016 - 16:54

Höfundar

Vöxtur íslenskrar plötuútgáfu var mikill á áttunda áratugi síðustu aldar og vöntun á góðu hljóðupptökuveri fór að segja til sín. Framtakssamir menn sáu þar tækifæri og komu á fót Hljóðrita í Hafnarfirði, fyrsta íslenska hljóðverinu sem sérsmíðað var til upptöku á tónlist.

„Við stofnum Hljóðrita 1975 – en áður en Hljóðriti kemur til sögunnar er engin upptökuaðstaða að neinum metnaði,“ segir Jónas R. Jónsson, einn af stofnendum hljóðversins. Magnús Kjartansson átti einnig stóran þátt í verkefninu; „Þá er komin tími til að byggja hljóðver á Íslandi, fjölrása hljóðver. Það byrjar sem átta rása stúdíó, sem okkur þótti skapa alveg gífurlega möguleika,“ segir Magnús. „Það byrjar bara nýtt tímabil í íslenskri dægurlagasögu.“

Tónlistarútgáfa jókst til muna með tilkomu hljóðversins og höfðu fleiri hljómsveitir nú tækifæri til þess að gefa út plötur. „Það má segja að Hljóðriti hafi verið örlagavaldur í lífi margra, og í tónlistarlífi Íslendinga,“ segir Jónas R.

Popp- og rokksaga Íslands

Hér fyrir ofan má sjá brot úr sjötta þætti sjónvarpsþáttaraðarinnar Popp- og rokksaga Íslands en hann hefst aftur eftir hlé á sunnudagskvöldið kl. 20.15 á RÚV. Í þáttunum er farið yfir sögu og þróun rokk- og popptónlistar á Íslandi. Í þáttunum hittum við söngvara, lagahöfunda, upptökustjóra og aðra sem hafa sett svip sinn á blómlegt tónlistarlíf Íslendinga í gegnum tíðina.