Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Orkuveitan orðið fyrir opinberri smánun

20.11.2018 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Það er mat innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar að Orkuveitan hafi orðið fyrir opinberri smánun á samfélagsmiðlum. Aðjúnkt segir eðlilegt að mál fyrirtækisins hafi átt erindi við almenning og veltir því upp hvort hægt sé að tala um opinbera smánun fyrirtækis.

 

Viðbragðsáætlun vegna smánunar 

Í skýrslu Innri endurskoðunar um orkuveituna segir að Metoo-umræða á samfélagsmiðlum hafi magnast óáreitt í að klám, káf og kynferðisleg áreitni væri látin viðgangast innan fyrirtækisins. Þetta sé birtingarmynd opinberrar smánunar sem byggi á óábyrgri orðræðu og rangtúlkun. Lagt er til að Orkuveitan meti sérstaklega áhættu vegna opinberrar smánunar, ekki sé nóg að huga að orðsporsáhættu. Þá leggur Innri endurskoðun til að útfærð verði áætlun um hvernig skuli bregðast við, sé eitthvað í rekstrinum slitið úr samhengi í umræðu á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Í skýrslunni er vísað til fyrirlesturs sem Hafsteinn Þór Hauksson, dósents við Lagadeild HÍ, flutti. þar er opinber smánun sögð skuggahlið samfélagsmiðla, fólk verði, fyrir einhvers konar snjóflóði á netinu, fyrir litlar eða engar sakir. Læk og umsagnir Jóns og Gunnu á Facebook verði snjókorn í því flóði. 

„Orkuveitumálið átti tvímælalaust erindi við almenning, þetta er opinbert fyrirtæki, þetta kemur beint inn í umræðu um eitthvað sem við erum flest sammála um að sé samfélagslegt mein sem þurfi að taka á. Hvort hægt er að tala um opinbera smánun fyrirtækis, ég veit það ekki alveg. Mér finnst vera svolítill munur á því hvort um er að ræða einstakling sem er hræddur og smánaður í opinberri umræðu heldur en fyrirtæki sem alltaf hafa þurft að glíma við og bregðast við neikvæðri umræðu.“ Segir Valgerður Anna Jóhannsdóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Fáir sem taka þátt í umræðunni

Ábyrgð fjölmiðla sé þó mikil. „Umræða getur grasserað á samfélagsmiðlum en það er ekki fyrr en fjölmiðlar taka hana upp sem hún dreifist víðar. Rannsóknir hafa líka sýnt að það er mjög lítill minnihluti sem tekur þátt í umræðu um fréttir til dæmis á opinberum vettvangi, þetta er ekki þjóðarspegill.“