Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Orkuveita Reykjavíkur fær 2 milljarða í styrk

30.09.2018 - 13:41
Mynd með færslu
 Mynd: Orka náttúrunnar
Orkuveita Reykjavíkur ásamt samstarfsaðilum hefur hlotið rúmlega tveggja milljarða króna styrk í gegnum Rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins. Styrkurinn er til verkefnisins GECO sem miðar að sporlausri nýtingu jarðhita en Orkuveita reykjavíkur leiðir þetta samstarfsverkefni 18 fyrirtækja og stofnana víðs vegar að úr Evrópu.

Markmið verkefnisins er að þróa jarðhitavirkjanir með sem minnstri losun koltvíoxíðs og brennisteinsvetnis. Segir í tilkynningu að það byggi að stórum hluta á svokallaðri CarbFix niðurdælingaraðferð sem þróuð hefur verið að Hellisheiðarvirkjun undanfarin áratug í samstarfi við Orku náttúrunnar og innlendar og erlendar rannsóknarstofnanir.

Í verkefninu verða einnig þróaðar aðferðir sem stuðla að hagnýtingu jarðhitalofttegunda. Unnið verður að enn umhverfisvænni og sparneytnari aðferðum við hreinsun koltvíoxíðs með hagnýtingu í huga og þannig auka tekjumöguleika við jarðhitanýtinguna.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV