Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Orkustofnun staðfestir brot dreifiveitna

26.03.2019 - 17:08
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Dreifiveitur hafa ekki heimild til að setja nýja notendur rafmagns sjálfgefið í sölu hjá því sölufyrirtæki sem dreifiveitan er í tengslum við. Þetta staðfestir Orkustofnun í svari við kvörtun Orku heimilanna.

Orka heimilanna gerði Orkustofnun og Samkeppniseftirlitinu grein fyrir „verulegum misbrestum“ í verklagi dreifiveitna við móttöku nýrra viðskiptavina og fór þess á leit að málið yrði skoðað. 

Orka heimilanna taldi dreifiveiturnar hafa hunsað skýr ákvæði um notendaskipti í raforkulögum með því að setja alla nýja raforkunotendur sjálfgefið í viðskipti við það sölufyrirtæki sem dreifiveitan er í eignartengslum við. Þannig hafi þau viðhaldið markaðshlutdeild síns sölufyrirtækis og komið í veg fyrir eðlilega samkeppni. Orka heimilanna óskaði því eftir aðild Orkustofnunar að málinu og  vonaðist til þess að það myndi leiða til þess að dreifiveiturnar færu að lögum og byðu nýjum notendum að velja sér söluaðila. 

Í fréttatilkynningu sem Orka heimilanna sendir fjölmiðlum í dag segir að Orkustofnun staðfesti að dreifiveiturnar hafi með háttsemi sinni brotið gegn ákvæðum reglugerðar um raforkuviðskipti og að sú háttsemi gangi gegn skilyrðislausum rétti viðskiptavina til að eiga viðskipti við þá raforkusala sem þeir kjósi að kaupa raforku af. 

Með aðgerðunum hafi dreifiveiturnar skipt markaðnum á milli sölufyrirtækja með markvissum hætti og þannig tryggt sínu sölufyrirtæki raforkuviðskipti upp á milljarða króna. 

Dreifiveiturnar sjá um dreifingu rafmagns á sínum svæðum og hafa til þess starfsleyfi Orkustofnunar. „Orkustofnun hefur með úrskurði sínum fallist á að framangreind háttsemi sé í andstöðu við reglugerð um raforkuviðskipti,“ segir í tilkynningunni. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV