Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Orkupakkinn tengir Ísland ekki við ESB markað

18.09.2018 - 10:57
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Þriðji orkupakki Evrópusambandsins fæli ekki í sér endurskoðun EES-samningsins og leggur ekki skyldu á íslensk stjórnvöld til að tengjast innri orkumarkaði ESB með sæstreng. Reglur þriðja orkupakkans varða þar að auki ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkuauðlindum á Íslandi. Þetta leiðir greinagerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, um þriðja orkupakkann í ljós.

Greinagerðina vann hann að beiðni Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Hún segir greinargerðina mikilvægt innlegg í umræðu um málið. Umræðan fyrr á árinu hafi bent til þess að ýmsum spurningum hefði ekki verið nægilega vel svarað eða þeim svörum ekki komið nægilega vel á framfæri.

„Greinargerðin er ítarleg, setur málið í gott heildarsamhengi og svarar að mínu mati vel helstu spurningum sem fram hafa komið. Þá sýnist mér hún vera í ágætu samræmi við það sem aðrir helstu sérfræðingar hafa sagt um málið. Ég nefni minnisblað Ólafs Jóhannesar Einarssonar lögmanns til ráðuneytisins í apríl síðastliðnum, framsögu Kristínar Haraldsdóttur forstöðumanns Auðlindaréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík á ráðstefnu á vegum skólans nú í ágúst og nýlega grein Rögnu Árnadóttur aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar í Úlfljóti,“ segir Þórdís Kolbrún.

Sameiginlega EES-nefndin ákvað á liðnu ári að taka þriðja orkupakka ESB upp í EES-samninginn. Samningurinn tekur ekki gildi nema Alþingi, að tillögu utanríkisráðherra, staðfesti ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Aldrei áður hefur Alþingi hafnað ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Í greinagerð Birgis er farið yfir fyrsta og annan orkupakka ESB, sem voru báðir innleiddir hér á landi, og hvaða breytingar felast í þeim þriðja. Þar kemur fram að aukið sjálfstæði raforkueftirlits, sem falið er í þriðja orkupakkanum, feli ekki í sér breytingar frá því sem gildir um aðrar sjálfstæðar eftirlitsstofnanir á Íslandi, sem á undanförnum árum hafa fengið aukið sjálfstæði sbr. Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið. Valdheimildir ESA á grundvelli þriðja orkupakkans rúmast vel innan þeirra marka sem dregin voru við innleiðingu reglna um evrópskt samkeppnis- og fjármálaeftirlit.

Í greinagerðinni kemur fram að reglur um samkeppni, bann við ríkisaðstoð, neytendavernd og fleira takmarki svigrúm íslenskra stjórnvalda í raforkumálum en þessar takmarkanir hafi nú þegar verið leiddar í lög hér á landi. Fullyrðingar um að þriðji orkupakkinn feli í sér eðlisbreytingar hvíli ekki á traustum grunni. Þá segir að reglur þriðja orkupakkans varða ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkuauðlindum á Íslandi.

 „Á grundvelli þess sem hefur komið fram um málið er ekki að sjá að innleiðing þess í íslensk lög fæli í sér meiriháttar frávik frá fyrri stefnumótun stjórnvalda í þessum málaflokki en almennt myndi ég telja að það þurfi afar sterk rök til að hafna með öllu upptöku ESB gerðar í EES samninginn sem talin er varða innri markaðinn. Það væri í fyrsta skipti frá upphafi sem við gerum það og ekki ljóst hvert það myndi leiða,“ segir Þórdís Kolbrún.

Hér má nálgast greinagerð Birgis Tjörva í heild sinni.