Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Orkupakkinn stríðir ekki gegn stjórnarskrá

31.08.2018 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Kristín Haraldsdóttir, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og sérfræðingur í orkurétti, segir að ekki reyni á valdframsalið sem felist í þriðja orkupakka Evrópusambandins á meðan ekki sé tenging á milli Íslands og EES-svæðisins. Fyrirhugaður sæstrengur gæti breytt því. Hún telur orkupakkann ekki stríða gegn stjórnarskránni.

Þriðji orkupakki Evrópusambandsins verður hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið verði hann samþykktur á Alþingi. Breyta þarf raforkulögum við innleiðingu orkupakkans. Í orkupakkanum er fólgið ákveðið valdframsal til ESA, eftirlitstofnunar EFTA, að sögn Kristínar.

Valdframsalið snýr að stjórnun á flutningskerfi raforku þar sem er samtenging á milli landa.

„Þetta eru ákveðnar heimildir til þess að taka ákvarðanir sem lúta að tæknilegum atriðum varðandi stjórnun kerfisins svo og ef það kemur ágreiningur á milli ríkja þar sem að um er að ræða samtengingu um hvernig eigi að veita aðgang að samtengingunni þá mun ESA skera úr um þann ágreining ef hann er a milli Íslands og annars ríkis.“

Á meðan Ísland er ekki tengt Evrópska efnhagssvæðinu þá kemur ekki til þess að á þetta valdframsal reyni. Fyrirhugaður sæstrengur gæti aftur á móti breytt þeirri stöðu. Meta þarf hvort samningurinn stríði gegn stjórnarskrá Íslands. Þá er meðal annars litið til þess hve víðtækt framsalið er og hve vel skilgreint.

„Í þessu tilviki er um að ræða mjög afmarkað framsal valds. Það er mjög skýrt hvað það snertir og þetta er um að ræða ákvarðanir sem yrðu teknar gagnvart opinberum stjórnvöldum, í okkar tilfelli raforkueftirliti orkustofnunar, þannig að það eru mikilvægir þættir sem benda til þess að þetta væri ekki brot á stjórnarskrá, “ segir Kristín.