„Kreutzer sónötuna“ eftir rússneska rithöfundinn Leó Tolstoj og nóvelluna „Hverjum er um að kenna“ sem eiginkona hans Soffía Tolstaja skrifaði sem andsvar, en þótti henni illa farið með konur í verki eiginmannsins.
„Kreutzer sónatan“ eftir Leó Tolstoj er það verk hans sem hvað mestri hneykslan olli á nítjándu öld. Nóvellan kom út árið 1889 og var fljótlega bönnuð af rússneskum yfirvöldum. Það kom þó ekki í veg fyrir að bókin nyti mikilla vinsælda, fjölrituðum eintökum dreift á laun. Nóvellan kemur nú út í nýrri þýðingu Benedikts S. Lafleur og Vitu V. S. Lafleur.
„Kreutzer sónatan“ er enn hneykslanleg, 130 árum eftir að hún kom fyrst út, en það sem vekur hneykslan lesenda á 21. öld er annað en það sem ofbauð velsæmiskennd 19. aldar lesenda. Lesendur á 19. öld hneyksluðust yfir vanhelgun hjónabandsins, en nútímalesandinn hneykslast á ítarlegum og ítrekuðum lýsingum af heimilisofbeldi, bæði andlegu og líkamlegu, lýsingar frá sjónarhóli gerandans.
Í sjálfsævisögu sinni segir Soffía Tolstaja að hún þegar hún prófarkalas „Kreutzer sónötuna“ eftir eiginmann sinn mislíkaði henni hvernig farið var með konur í sögunni, og því hafi hún ákveðið að skrifa sögu um hjónaband frá sjónarhóli kvenna, en ekki gefið hana út. Þetta er sagan „Hverjum er um að kenna“ sem birtist fyrst á prenti árið 1994 og kemur nú út í íslenskri þýðingu Ingibjargar Elsu Björnsdóttur.
Soffía Tolstaja starfaði sem prófarkalesari og umboðsmaður Tolstojs og í þættinum er einnig rætt um eiginkonur rithöfunda sem aðstoða eiginmenn sína við ritstörfin, konur eins og Tolstaju, Veru Nabokov og Auði Laxness.
Umsjónarmaður er Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir. Lesari með henni er Arndís Björk Ásgeirsdóttir.