„Orðnir eins og útigangshross, hímandi í höm“

22.02.2019 - 21:43
Mynd:  / 
Ólafur Ísleifsson segir það ekki hafa staðið til að ganga í Miðflokkinn, þegar þeir voru reknir úr Flokki fólksins eftir að Klaustursmálið kom upp. Karl Gauti Hjaltason og Ólafur tilkynntu í dag að þeir hefðu gengið til liðs við Miðflokkinn.

Í tilkynningu segjast þeir eiga samleið með Miðflokknum í stuðningi við láglaunafólk og þá sem standa höllum fæti í íslensku samfélagi. Þá séu þeir og Miðflokksmenn sammála um nauðsyn þess að leiðrétta kjör hinna lægst launuðu og skapa öldruðum og öryrkjum tækifæri til að bæta hag sinn með aukinni vinnu án skerðingar almannatryggingabóta. 

„Við vorum fullkomlega heilir í okkar fyrri flokki og höfðum engin áformum um að yfirgefa hann,“ sagði Ólafur í viðtali í fréttum RÚV í kvöld. „Mest allur málatilbúnaður þess flokks er frá okkur runninn. Það er ekki fyrr en mál skipast með þeim hætti að við erum orðnir eins og útigangshross, hímandi í höm, að málin tóku þessa stefnu. Þetta byggist á málefnalegri samstöðu á milli okkar og Miðflokksmannanna. Það er ekki fyrr en í gær sem að endanleg ákvörðun var tekin í þessum efnum.“

Ólafur og Karl Gauti sátu með fjórum þingmönnum Miðflokksins að sumbli á Klausturbar í lok nóvember. Á upptöku sem gerð var af fundi þingmannanna heyrist hvernig þeir tala illa um samstarfsfólk sitt og aðra, og eru með drykkjulæti.

Eftir að upptökurnar voru gerðar opinberar var Karli Gauta og Ólafi vísað úr Flokki fólksins. Þeir hafa verið utan þingflokka síðan.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi