Orðinn mannskæðasti eldsvoði Kaliforníu

12.11.2018 - 04:24
epa07160076 A burned out vehicle sits in the driveway of a Paradise home after the Camp Fire burned through the region, fueled by high winds in Butte County, California, USA, 11 November 2018. The nearby communities of Pulga, Paradise and Concow, have
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirvöld í Kaliforníu segja að 31 hafi nú fundist látinn af völdum eldanna í ríkinu. Yfir tvö hundruð er saknað að sögn Kory Honea, lögreglustjóra í Butte-sýslu, sem er í norðurhluta ríkisins. Þar hefur Camp-eldsvoðinn valdið gríðarlegu tjóni. Þar á meðal hefur bærinn Paradise, þar sem um 27 þúsund bjuggu, nánast gjöreyðilagst. Minnst 29 eru látnir af völdum Camp eldsvoðans, en hin tvö líkin fundust sunnar í Kaliforníu, þar sem tveir miklir eldar geisa, að sögn Reuters. 

Áfram er búist við hvassviðri og þurrki í ríkinu, í það minnsta fram á þriðjudag. Eldarnir hafa náð að breiða hratt úr sér vegna aðstæðna, og hafa um 300 þúsund manns orðið að flýja heimili sín. 

Camp eldurinn hefur nú þegar kostað jafn mörg mannslíf og Griffith Park eldurinn árið 1933, sem var hingað til mannskæðasti eldsvoði í sögu ríkisins. Ríkisstjórinn Jerry Brown hefur beðið Donald Trump Bandaríkjaforseta um að lýsa yfir neyðarástandi vegna hamfara, svo auka megi umfang viðbragðsaðila og koma íbúum til aðstoðar. Trump hefur hingað til kennt þeim sem fara með umsjón skóganna um hversu miklir eldarnir hafa orðið. Með almennilegri stjórnun á skóglendinu væri hægt að koma í veg fyrir eyðileggingu á borð við þessa, að sögn forsetans. Hann hefur áður kennt yfirvöldum um eldsvoða í ríkinu og hótað að halda aftur af fjárútlátum til þeirra. Telur hann að ríkið eigi að vera virkara við að hreinsa skóglendi af rotnandi trjám og öðru rusli sem magnar upp eld.