Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Orðið ókunningi „gjöf til þjóðarinnar“

16.11.2018 - 20:52
Mynd:  / 
Eliza Reid forsetafrú lærir ný íslensk orð í hverri viku og komst nýlega að því að orðið ókunningi væri ekki til í málinu. Í dag, á Degi íslenskrar tungu, birti hún fyrsta bréfið sem hún skrifaði Guðna á íslensku.

Íslenzka með zetu

Bréfið skrifaði Eliza 26. september árið 1999, þá 23 ára. Guðni var þá á Íslandi, en hún var að vinna á Englandi. Í spilaranum hér fyrir ofan má heyra Elizu lesa upp úr bréfinu og útskýra ákveðna þætti þess. „Kæri vinur Guðni, bréfinu fylgdu nokkrar ljósmyndir frá ferðalagi okkar sumarið á undan. Þau eru ljósmyndirnar. Að mínu áliti, þau eru gott. Íslenzka mín, og þetta er íslenzka skrifað með z, er ekki gott. Nema vaninn gefur listina. Eigi að síður, ég hef miklar mætur á enskri tungu. Berðu fjölskylda þín kveðju mína. Virðingarfyllst og með ást. Kveðja, Eliza.“

Lestarstöðvar og strendur

Við skriftirnar studdist Eliza við gamla bók með íslenskum og enskum orðatiltækjum. „Ég held þetta var sú einasta bók sem ég fann til að hjálpa mér að læra íslensku, svo ég var líka búin að kaupa geisladisk fyrir tölvuna en það var algengt frasar í alls konar tungumálum eins og hvar er lestarstöðin og hvar er ströndina. Kannski frasar sem maður notar ekki endilega á íslensku.“

Vikuleg íslenskukvöld 

Stuttu eftir að Eliza sendi bréfið fóru þau Guðni að halda íslenskukvöld vikulega. „Þar sem við vorum bara að tala íslensku saman en þetta var meira þögn fyrir Guðna held ég, hann var í smá friði frá mér að tala alltaf því ég gat ekki sagt mjög mikið á þeim tíma.“ 

„Í lagi að tala málið ófullkomlega“

Í hennar huga er dagur íslenskrar tungu einstakur.
En hvers vegna birti hún bréfið í dag? „Mér fannst þetta passa í tilefni dagsins og líka til að hvetja fólk eins og ég sem er ekki með íslenska sem móðurmál að segja að það er í lagi og það er hægt að tala málið ófullkomlega, að gera mistökin en samt að reyna. Ég er oft spurð þetta spurningar í þátíð, var þetta erfitt, eins og ég sé búin að læra tungumálið og vaknaði einn góðan veðurdag og sagði ég bara búin en að sjálfsögðu á hverjum degi er ég að læra orð. Eins og ég vissi ekki fyrir nokkrum vikum síðan að ég var alltaf að nota nafnorðið ókunningi þangað til einhver sagði mér að það væri ekki til á íslensku, þetta er kannski gjöf mín til þjóðarinnar þetta orð.“

Eliza er þakklát tengdamóður sinni fyrir að hafa frá upphafi talað við hana á íslensku. „Þegar ég var að byrja talaði hún bara hægt og rólegt með einföld orð og þetta hjálpaði mér mjög mikið.“

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV