Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Orðaforði íslenskra barna

Mynd með færslu
 Mynd: Lars Ploughman - flicr

Orðaforði íslenskra barna

29.04.2015 - 15:48

Höfundar

Að undanförnu hafa skapast nokkrar umræður um hvort íslensk börn tileinki sér ekki íslenskan orðaforða þegar þau eru á máltökuskeiði.

Nýlega birtist grein í Fréttablaðinu, eftir Lindu Björk Markúsardóttur talmeina- og íslenskufræðing. Greinin nefnist „Ég kann þetta ekkert á íslensku“. Linda Björk segir þar frá því að börn sem til hennar koma hafi ekki grunnorðaforða á íslensku, jafnvel þótt þau séu ekki haldin málþroskaröskun. Hluti af starfi hennar sem talmeinafræðingur sé í því fólgið að meta orðaforða og málkunnáttu barna og unglinga. Ein aðferðin sem hún beitir er að sýna börnunum myndir af hlutum og biðja þau að nefna þá. Linda Björk segir í grein sinni að börnin svari því oft til að þau viti hvaða hlutur þetta sé en kunni bara ekki að nefna hann á íslensku. Í viðtali í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 skýrði hún málið betur. Hún sagði frá því að í upphafi hefði komið til hennar drengur sem nefndi blýant pensil, flóðhest kallaði hann hippó og nashyrning rænó. Hún áleit að þetta væri einstakt tilfelli og dró þá ályktun að drengurinn væri kannski ekki sterkur félagslega og væri þess vegna mikið inni og í tölvunni þar sem hann notaði ensku meira en íslensku.

Linda Björk tók svo eftir því að fleiri börn báðu um að fá að nota ensku af því að þau hefðu ekki orðin yfir hlutina á íslensku. Þetta færist, að hennar sögn, sífellt í aukana, mörg börn séu betur að sér í ensku en íslensku. Hún segir að þetta sé mest áberandi meðal barna á aldrinum 9-16 ára. Prófið sem hún leggur fyrir börnin stigþyngist, er einfalt í upphafi og þar vefst ekki fyrir börnunum að nefna á íslensku þá hluti sem á myndunum eru en þegar líður á prófið þyngist það og þá grípa þau frekar til enskunnar.

Í viðtalinu í Síðdegisútvarpinu sagði Linda Björk frá því að annar talmeinafræðingur, sem mest vinnur með börnum á leikskólaaldri, hefði tekið eftir að yngstu börnin grípi líka mikið til ensku, allt niður í þriggja til fjögurra ára. Hún veltir því svo fyrir sér í greininni í Fréttablaðinu hvernig geti staðið á því að börn og unglingar sem eiga íslenska foreldra, eru fædd og uppalin hér á landi og hafa alla tíð gengið í íslenska skóla, búi ekki yfir grunnorðaforða á íslensku. Í hennar huga er svarið augljóst. Það er fólgið í tölvum og tækni. Tækin séu að mjög takmörkuðu leyti á íslensku og börnin sjái ekki tilgang með því að nota mál sem nokkrar hræður tala þegar enskan „opnar dyr allra samskipta upp á gátt“ eins og hún orðar það í greininni.

Í viðtalinu í Síðdegisútvarpinu minntist Linda Björk á nokkuð, sem margir foreldrar kannast við. Það er að segja að börn tali saman á ensku, einkum í leik. Á ótrúlega skömmum tíma, mér liggur við að segja fáeinum árum, virðist svo vera komið að börnum sé tamara að grípa til ensku en íslensku í samskiptum sín á milli, jafnvel þótt þau tali íslensku við fullorðna og sér yngri börn.

Þetta er grafalvarlegt mál. Eigi að snúa þessari þróun við þarf að grípa til róttækra ráðstafana og það þolir enga bið. Og aðgerðirnar verða að koma úr mörgum áttum.

Foreldrar eru ákaflega mikilvægur hlekkur í þessari keðju. Máluppeldi barna er fyrst og fremst á þeirra könnu. Það eru þeir sem tala við börnin og þeir þurfa að gera mikið af því ásamt því að lesa marga og margvíslega texta fyrir þau og syngja fyrir þau og með þeim. Þeirra hlutverk er að auka og efla orðaforða barnanna. Máluppeldið er í því fólgið að nýta vel hvert tækifæri sem  gefst til að tala við börnin, spyrja þau spurninga og segja þeim frá. Það þarf líka að fá börnin til að segja frá, útskýra, spyrja og rökræða. Það besta við þetta er að foreldrar fá þar með gullið tækifæri til að efla, þroska og þjálfa eigin málnotkun.

Kennarar geta ekki skorast undan ábyrgð. Þeir verða að leggjast á sveif með foreldrum og sinna öflugu máluppeldi, gefa nemendum tækifæri til að hlusta, heyra, lesa og tala málið og hafa í huga að hver svo sem námsgreinin er þá fer námið fram á íslensku – að undanskildu tungumálanámi – og í hverri einustu námsgrein eru óþrjótandi tækifæri til að efla orðaforðann og æfa notkun málsins bæði talaða og ritaða. Ekkert eflir málþroska og máltilfinningu meira en fjölþætt notkun málsins. Það er ekki nóg að leggja áherslu á lestur heldur þarf að gefa ríkuleg tækifæri til að tala, segja frá, útskýra, spyrja, velta vöngum upphátt og í hljóði og ekki síst að skrifa. Þannig eflist tilfinningin fyrir málinu og þannig fæst þjálfun í að nota það.

Samfélagið ber líka mikla ábyrgð. Fjölmiðlar, auglýsendur, umsjónarmenn tómstundastarfs, íþróttaþjálfarar, afar, ömmur, frænkur og frændur. Allt þetta fólk getur verið góðar fyrirmyndir um málnotkun. Útlenskt orðatiltæki segir að það þurfi þorp til að ala upp barn. Máluppeldi er þar ekki undanskilið. En ef við viljum að börnin okkar geti talað íslensku auk annarra mála er ekki nóg að heimsþorpið taki máluppeldið í sínar hendur heldur þarf litla sjávarþorpið Ísland að axla ábyrgð á því.

Grein Lindu Bjarkar vakti mikla athygli. Enda ekki að furða því að það eru alvarleg tíðindi fyrir íslenskt mál þegar jafnvel litlum börnum er tamara að grípa til ensku en íslensku til að gera sig skiljanleg. Því má þó ekki gleyma að það eru engar rannsóknir á bak við greinina heldur eru þetta fyrst og fremst vangaveltur sem spretta í starfi og af tilfinningu einnar manneskju fyrir þróun sem hún verður vör við í starfi sínu. Það er samt gott að hún skuli hafa ýtt við okkur og það er ljóst að það er nauðsynlegt að rannsaka þetta mál, finna út hver staðan raunverulega er og fá úr því skorið hvort grunur hennar sé á rökum reistur.

Unga fólkið hverju sinni kemur sér upp eigin talsmáta sem er frábrugðinn máli þeirra sem eldri eru. Þessi talsmáti fylgir því gjarnan að nokkru leyti upp úr unglingsárunum og er ein af ástæðum þess að málið breytist og þróast. Hann er oft fullur af erlendum orðum, setningum og framburði sem taka sér bólfestu í málinu upp að vissu marki. Þannig hefur þetta alltaf verið og það er ekki beint ástæða til að óttast það. Nú eru þó teikn á lofti um að þetta sé að breytast og það þarf að rannsaka. Meðal þess við þurfum að fá botn í er hvort unglingar og ungt fólk notar í vaxandi mæli ensku í rafrænum samskiptum sín á milli og hvort það færist í vöxt að ung börn allt niður í leikskólaaldur bregði fyrir sig ensku af því að þau hafa ekki réttu orðin á íslensku.

Ef til vill er þetta stormur í vatnsglasi. Ég held þó að sá grunur læðist að mörgum að svo sé ekki og það sé raunveruleg ástæða til að hafa áhyggjur af þróuninni. Þeir hinir sömu bíða þess með óþreyju að fræðimenn ráðist í að rannsaka málið og finna út hvort þarf að snúa einhverri þróun við og þá hvernig það verður best gert.

Höfundur er málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins.