Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Orð ársins 2018 eru kulnun og klausturfokk

Mynd með færslu
 Mynd:

Orð ársins 2018 eru kulnun og klausturfokk

04.01.2019 - 16:59

Höfundar

Orð ársins er nú valið í fjórða skipti. Í þetta sinn var ákveðið að gefa kost á að að senda inn tillögur að orðum í tveimur flokkum, orð ársins og nýyrði ársins. Stofnun Árna Magnússonar valdi auk þess orð ársins úr textasöfnum sínum.

RÚV bauð áhugasömum að senda inn tillögur að orðum ársins og nýyrðum ársins í byrjun desember á menningarvef RÚV. Tæpar 200 tillögur bárust að orðum og nýyrðum. Af þeim voru valin fimm orð á hvorn lista og um miðjan mánuðinn var opnað fyrir kosningu á orði og nýyrði ársins 2018. Þegar kosningunni lauk, um áramótin, höfðu um 3.300 manns greitt atkvæði. Valið á orði ársins stóð um orðin braggi, frammistöðuvandi, kulnun, orkuskipti og vafrakaka. Valið á nýyrði ársins var á milli orðanna efsökunarbeiðni, gjammviskubit, klausturfokk, lýsingarorðsins svargur og loks orðsins strútskýring.

Niðurstöðurnar voru kynntar við afhendingu menningarviðurkenninga RÚV. Fyrir valinu urðu orðin kulnun og klausturfokk.

Orðið kulnun er notað um viðvarandi andlega og líkamlega þreytu og doða, einkum í tengslum við vinnu og hefur verið áberandi á árinu. Nýyrðið klausturfokk er haft um röð atburða sem einkennist af mistökum sökum vanhæfni, ranghugmynda eða heimsku. Orðið er byggt á enska orðinu clusterfuck, sem er sömu merkingar, og er beinlínis hljóðlíking þess. Nýyrði ársins spratt fram eftir að klausturupptökurnar voru kunngjörðar.

Stofnun Árna Magnússonar tilnefnir sagnorðið plokka

Á Stofnun Árna Magnússonar er textum safnað allt árið og þeir notaðir í rannsóknum á máli og málfræði og við þróun máltæknibúnaðar. Við val á orði ársins byggði stofnunin á upplýsingum í þessum textasöfnum sínum um notkun orðanna. Orðin sem koma til greina þurfa að hafa verið notuð meira á árinu en undanfarin ár en að auki að uppfylla einhver af eftirfarandi skilyrðum:

Þau eru ný í málinu eða gömul orð sem fengið hafa nýja merkingu. Þau segja okkur eitthvað um samtímann eða samfélagsumræðuna. Þau hafa möguleika á að lifa áfram í daglegri notkun eða sem minnisvarði um atburði sem áttu sér stað á árinu. Þau eru lýsandi fyrir málnotkun, annaðhvort almennt eða á tilteknu sviði.

Kallaðir voru fram listar úr gagnasöfnum stofnunarinnar yfir orð sem uppfylla þessi skilyrði. Þau voru skoðuð betur og búinn til tólf orða listi, með skýringum, sem hefur verið birtur á vef Árnastofnunar.

Eitt orð var svo valið úr þessum lista sem orð ársins 2018. Það féll vel að öllum viðmiðum Árnastofnunar um orð ársins. Þetta er gamalt orð sem fengið hefur nýja merkingu, en um leið tökuorð úr erlendu máli. Orðið sem varð fyrir valinu, orð ársins 2018, er sagnorðið plokka.

Þeir sem plokka tína upp rusl meðan skokkað er eða gengið. Þannig sameinar fólk áhuga á umhverfisvernd og heilsusamlegu líferni. Siðurinn á rætur að rekja til Svíþjóðar en þar í landi kallast þetta plogga og er orðið myndað af  plocka (tína upp) og jogga (skokka). Plokk komst í hámæli á fyrri hluta ársins og var mikið iðkað í sumar. Á Facebook var stofnaður hópurinn Plokk á Íslandi þar sem meðlimir deila myndum og sögum úr plokkinu.

Plokka er gamalt orð sem notað hefur verið í ýmsu samhengi. Oftast hefur það merkinguna að reyta, til dæmis fiður, augabrúnir eða jafnvel peninga af öðrum. Það getur merkt að hreinsa eitthvað úr einhverju og áhugamenn um tónlist þekkja margir strengjaplokk. Þessi nýja merking orðsins fellur því vel að eldri merkingu og rímar þar að auki við skokkið, sem margir plokkarar stunda.