Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Orð ársins 2016: Hrútskýring

Mynd: https://static01.nyt.com/images/ / https://static01.nyt.com/images/

Orð ársins 2016: Hrútskýring

06.01.2017 - 17:00

Höfundar

Ríkisútvarpið, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Mímir – félag stúdenta í íslenskum fræðum stóðu fyrir valinu á orði ársins 2016. Þjóðinni gafst kostur á að kjósa eftirfarandi orð: Aflandsfélag, hatursorðræða, hrútskýring, hú!, kynsegin, Panamaskjöl, skattaskjól, tjákn og víkingaklapp.

Ekki var leitað að því fegursta eða jákvæðasta heldur voru orðin valin til úrslita því þau einkenndu þjóðfélagsumræðuna eða voru áberandi með öðrum hætti á árinu 2016 – en áhugaverð orðmyndun gat einnig komið orði á lista.

Og þjóðin kaus: Hrútskýring er orð ársins 2016 – með rúmlega 35 prósentum greiddra atkvæða. Guðrún Línberg Guðjónsdóttir, málfarsráðgjafi og íslenskufræðingur kom við í Lestina á Rás 1 í dag og sagði nánar frá orðinu. 

Hrútskýring er myndað úr orðunum hrútur og útskýring og er þýðing á enska orðinu mansplaining – sem er samsett úr man og explain. Saga orðsins í ensku hefur verið rakin til ársins 2008 og greinahöfundinum Rebeccu Solnit hefur verið eignað að vekja athygli á inntaki þess í hnotskurn. Hún á ekki heiðurinn af orðmynduninni sjálfri – heldur kom orðið fram í athugasemdakerfi þar sem rætt var um rit Solnit: Men explain things to me. Verkið fjallar um stöðu kvenna út frá sjónarhorni Solnit – um reynslu hennar af því að karlmenn útskýri fyrir konum á yfirlætislegan og lítillækkandi hátt og gefi sér að þeir viti betur. Hún segir hugtakið afkvæmi feðraveldisins – vissrar fáfræði þess sem hrútskýrir og jafnvel meira sjálfsöryggis en tilefni er til.

Orðið mansplaining var sem sagt upphaflega notað um karlmenn sem útskýra – karlmenn sem útskýra fyrir konum - óþarflega og með ímynduðum yfirburðum. En merkingin hefur víðari skírskotun og í raun geta allir - sem hafa einhvers konar forréttindastöðu gagnvart öðrum - hrútskýrt. Yfirburðirnir geta verið fólgnir í ímynduðu stigveldi hverskonar – í kynhneigð, kynþáttum, aldri eða öðru. En í rauninni þarf ekki að eiga sér stað bein útskýring – hrútskýringar geta birst sem framígrip, þegar einhver grípur orðið á lofti og finnur sig knúinn til að koma viti fyrir viðmælanda sinn eða jafnvel niðurlægja með ímyndaða yfirburði að vopni.

Karlskýring er önnur þýðing á mansplaining en árið 2011 stakk rithöfundurinn og nýyrðasmiðurinn Hallgrímur Helgason, upp á orðinu hrútskýringu á Facebook-síðu sinni – og mætti jafnvel segja að það nái betur yfir hugtakið en hið enska mansplaining. Útvíkkuð merking fyrri liðar íslensku samsetningarinnar gefur örlítið meiri innsýn inn í merkinguna sem að baki býr en í ensku samsetningunni.

,,Hrútskýring hittir beint í mark – samsetningin fer hönd í hönd og nær á hnyttinn hátt utan um ákveðinn þátt í mannlegu samfélagi. Í orðinu eina endurspeglast löng og margþætt saga – við erum ekki öll sammála í túlkun á henni en við skiljum öll merkinguna. Mætti jafnvel kalla orðið satíru? Mætti ekki líta á orðmyndunina sem ádeiluskáldskap í sinni smæstu mynd?''
- Guðrún Línberg Guðjónsdóttir. 

Athugasemd: Í upphaflegu færslunni kom fram að Hallgrímur Helgason hafi stungið upp á orðinu hrútskýringu sem þýðingu á hinu enska mansplaining árið 2012. Hið rétta er að það var árið 2011 og leiðréttist hér með.