Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Óraunhæfar væntingar kröfuhafa

09.05.2014 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjármálaráðherra segir væntingar kröfuhafa í slitabú fallinna fjármálafyrirtækja óraunhæfar. Samkomulag Landsbankans við slitastjórn gamla bankans sé stórt skref í átt að afnámi gjaldeyrishafta.

Landsbankinn og slitastjórn gamla Landsbankans gerðu með sér samkomulag í gær um breytingar á skuldabréfum að verðmæti 226 milljarða króna. Upphaflega samkomulagið var að Landsbankinn greiddi gamla bankanum lokagreiðslu 2018 en því hefur nú verið frestað til 2026. Seðlabankinn þarf að veita undanþágu frá gjaldeyrishöftunum til að samkomulagið standi. Einnig þarf fjármálaráðherra að samþykkja undanþáguna og leggja málið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd, þar sem um er að ræða svo háa upphæð.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að samkomulagið sé mjög jákvætt skref fyrir bankann. Hann hefur þó ekki ákveðið hvort hann samþykkir undanþáguna ef til hennar kemur þar sem hann hafi ekki komið að málinu fram til þessa. „Það er engum blöðum um það að fletta að málið er mjög jákvætt fyrir bankann. Mjög mikilvægt að geta endurfjármagnað skuldbindingar sínar en það er gert með fyrirvara um að undanþágur verði veittar frá gjaldeyrishöftunum. Og nú byrjar þá seinni kafli málsins.“

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sagði samkomulagið afar stórt skref í afnámi gjaldeyrishafta. Bjarni segir það alveg hárrétt. Enn sé þó lagt í land. „Við erum enn ekki komin með raunhæfar tillögur frá slitabúunum til að vinna með og það er verið að vinna áfram með hugmyndir fyrir aflandskrónurnar. Síðan eru þessar skuldbindingar, meðal annars skuldbinding Landsbankans. Í mínum huga er í sjálfu sér ekkert sem fyrirfram veldur því að þetta gæti ekki gerst hratt. En það þarf að samstilla væntingar. Og í mínum huga eru væntingar þeirra sem eiga kröfur á slitabú fallinna fjármálafyrirtækja, óraunhæfar.“