
Ör vöxtur í Skotfélagi Húsavíkur
Gylfi Sigurðsson, gjaldkeri Skotfélags Húsavíkur segir að í upphafi hafi verið rekin niður tunna, við hana hafi menn tyllt sér á stól og skotið úr riffli. „síðan þróaðist þetta í lítið borð úti í móa. Því næst fengum við gefins lítinn skúrræfil sem við gátum dubbað upp og skotið úr,“ segir Gylfi.
Aðstaðan orðin með þeim veglegri
Nú er annað upp á teningnum því félagssvæðið stefnir óðum í að verða með þeim veglegri á landinu. Mikil gróska hefur verið í félaginu síðustu ár og uppbygging í samræmi við það. Árið 2016 var tekið í notkun nýtt 50 fermetra riffilhús með 5 skotborðum. Í fyrra var svo lagt út fyrir stærri leirdúfuvelli og segir Gylfi að viðbrögðin hafi ekki staðið á sér. Fjöldi félagsmanna hafi rokið upp og þeim fjölgað um 36% frá því í júní á síðasta ári. Hann geti ekki betur séð en að fjöldinn fari enn vaxandi. Félagsmenn séu nú á annað hundrað.
Leirdúfan vinsælust
Gylfi segir alltaf nóg um að vera á svæðinu og gildi þá einu hvort fólk sé að æfa sportskotfimi eða búa sig undir komandi veiðitímabil. Leirdúfukastarinn sé vinsælli þótt riffillinn sé að sækja í sig veðrið. Nýir félagsmenn séu að mestu ungir karlmenn en sífellt fleiri konur sæki í sportið. Þá kalli aukin ásókn á stærra húsnæði en Gylfi segir gömlu aðstöðuna löngu sprungna. Núverandi hús sé 24 fermetrar sem sé fljótt að fyllast á mótum.
Skóflustunga að 90 fermetra húsi
Nýlega var því tekin skóflustunga að 90 fermetra húsi og segir Gylfi það geta hýst alla starfsemi félagsins, í kringum keppnir og fleira. Þá fáist loksins heitt vatn og rafmagn sem verði stór breyting. Það sé óhætt að segja að félagsmenn séu himinlifandi og spenntir yfir framkvæmdunum og er vonast til að félagið flytji inn í nýtt húsnæði næsta sumar.