Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ópólitískir bæjarstjórar mispólitískir

Mynd með færslu
 Mynd: Public domain pictures
Hvað er ópólitískur bæjarstjóri? Því er ekki auðvelt að svara. Þeir sem hafa verið ráðnir til að gegna slíku embætti hafa ólíka sýn á það hvað felst í því og sumir eru póiltískari en aðrir. Eva Marín Hlynsdóttir, lektor við Stjórnmálafræðideild HÍ, ræddi rannsóknir sínar á þessu sviði á fundi í Háskóla Íslands á dögunum. Hún telur að eftir sókn síðustu ára kunni ópólitískir bæjarstjórar að vera á undanhaldi. 

Skipa sér á breitt róf

Þegar bæjarstjóri er pólitískur er pólitíkin nátengdari stjórnsýslunni, bæjarstjórinn er í forsvari fyrir meirihlutann og getur tekið ákvarðanir sem eru virtar. Bæjar- eða framkvæmdastjóri sem er ráðinn inn, hinn ópólitíski bæjarstjóri, þarf alltaf að fá leyfi eða spyrja hvort sveitarstjórnin sé sátt við að hann geri þetta eða hitt. Ópólitískur bæjarstjóri er þó ekkert eitt. Doktorsrannsókn Evu Marínar tók til bæjarstjóra sem voru starfandi á kjörtímabilinu frá 2010 til 2014, hún lagði fyrir þá skoðanakönnun og tók viðtöl við 44, 32 þeirra voru ópólitískir en 12 pólitískir. 

„Við getum horft á þetta út frá mjög hefðbundinni skiptingu á milli þess pólitískt hlutlausa og þess pólitískt virka. Þeir sem koma inn í þessa stöðu og segja ég er algjörlega hlutlaus, ég er fulltrúi allra og vil ekki taka afstöðu með neinum, þeir eru á þessum hlutlausa enda. Hinir sem eru tilbúnir að leggja meirihlutanum lið, jafnvel til í að styðja við meirihlutann, þeir eru komnir á pólitískari enda þessa áss. Farnir að vinna pólitískt að brautargengi fyrir meirihlutann.“ 

Fimm týpur

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Eva Marín Hlynsdóttir, Lektor í stjórnmálafræði.

Eva greindi fimm týpur ópólitískra bæjarstjóra og þær raða sér á þetta róf. Hún kannaði til dæmis hvort sveitarstjórinn ópólitíski lagði mikla áherslu á hlutleysi eða hvort hann tók afgerandi afstöðu með meirihlutanum. Hversu mikla áherslu hann lagði á að skilja á milli daglegra starfa sveitarstjóra og stefnumótandi hlutverks sveitarstjórna og hvort hann horfði inn á við eða út á við, til dæmis í gegnum þátttöku í nefndum og ráðum. NIðurstaðan var eftirfarandi: 

Pólitíski stjórnandinn lítur á sig sem órjúfanlegan hluta meirihlutans og gengur erinda hans, segir 'við' og á þá bæði við sjálfan sig og meirihlutann. Hann daðrar við stjórnmálin og tekur þátt í mjög pólitískum verkefnum sem jafnan eru ætluð stjórnmálamönnum. Í þessum hópi voru reyndir og vel menntaðir karlmenn. Eva segir þá oft sitja lengi í sinni stöðu. Þeir telji sig hafa öðlast lögmæti til pólitískrar þátttöku í gegnum pólitíska tengingu. 

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: Energepic - Pexels
Karlarnir voru frekar með puttana í pólitíkinni.

Hinn stefnumótandi stjórnandi vinnur náið með meirihlutanum en lítur ekki á sig sem hluta sveitarstjórnar heldur sérfræðing. Hann er áhrifamikill út á við en ekki í krafti pólitískra tengsla eins og hinn póiltíski stjórnandi heldur í krafti þekkingar og reynslu. Í þessum hópi voru einkum karlar og flestir handvaldir inn.

Virki stjórnandinn vinnur einnig náið með meirihlutanum og er meðvitaður um þarfir hans en leggur áherslu á pólitískt hlutleysi og tekst oft að eiga góð samskipti við minnihlutann. Hann dregur áhrif sín af þekkingu og reynslu, er yfirleitt karlkyns og handvalinn í embættið. 

Ófúsi þátttakandinn lítur fyrst og fremst á sig sem sérfræðing í daglegum rekstri. Kjörnir fulltrúar eigi ekki að skipta sér af honum. Þá telur hann ytri samskipti eiga heima á könnu kjörinna fulltrúa og vill ekki koma að þeim. 

Hlutlausi stjórnandinn leggur áherslu á pólitískt hlutleysi, að hann sé ráðinn inn fyrir allt sveitarfélagið en ekki bara meirihlutann. Hann er tilbúinn að verja þessa stöðu með kjafti og klóm. Hann leggur áherslu á dagleg störf, sérfræðihlutverkið og það að fylgja reglum og er lítið í sendiherrahlutverkinu. Konur voru í meirihluta í þessum hópi, flestar ráðnar inn með auglýsingu. 

Konur frekar ráðnar til minni sveitarfélaga

Eva Marín komst að því að konur voru frekar ráðnar til að gegna stöðu ópólitísks bæjarstjóra í minni sveitarfélögum og þær röðuðu sér á hlutlausa endann, litu á sig sem sérfræðinga í daglegum rekstri. 

„Vildu helst ekki taka afstöðu með meiri- eða minnihluta, voru frekar í því að segja ég er hlutlaus aðili hér og vinn bara vinnuna mína.“ 

Þær voru oftast ráðnar inn eftir auglýsingu og þrátt fyrir að leggja upp úr því að þjóna öllum var það þessi hópur sem lenti í hvað mestum átökum við minnihlutann í sveitarstjórn. Í stærri sveitarfélögum var meira lagt upp úr því að stjórnendur hefðu stefnumótandi hlutverk. Karlar voru frekar ráðnir til starfa þar. Þá voru karlar sem voru ráðnir inn sem ópólitískir bæjarstjórar frekar með puttana í pólitík almennt og algengara að þeir væru handvaldir inn.

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Í ráðhúsi Reykjavíkur.

Ekki nóg að horfa á kynjahlutföll

Eva veit ekki hvað skýrir þennan mun og bendir á að það sé tiltölulega stutt síðan konum í þessum stöðum fór að fjölga.

 „Það þarf kannski frekari rannsóknir en ég held það sé mikilvægt samt, til lengri tíma litið, að horfa ekki bara á hversu margar konur eru hlutfallslega af framkvæmdastjórum heldur hvað þær eru að gera því það hvað þær eru að gera skiptir heilmiklu máli fyrir áhrif og völd viðkomandi.“

Íslenskt samkrull

Fyrirbærið ópólitískur bæjarstjóri eða framkvæmdastjóri sveitarfélags var fyrst skilgreint á sjötta áratugnum og tíðkast víða. Í Noregi og Danmörku er þetta þó útfært öðruvísi en hér. Þar er annars vegar framkvæmdastjóri og hins vegar pólitískur stjórnandi og skýr skil á milli. „Þetta samkrull sem við erum með, þetta flæði á milli ólíkra kerfa er dálítið óvenjulegt. Ég hef ekki séð það annars staðar, að farið sé svona oft á milli kerfanna. Mögulega er þetta bara eitthvað aðstæðubundið, að við bregðumst við ákveðnum aðstæðum í okkar umhverfi.“

Tengja pólitíska bæjarstjóra frekar spillingu

Upp úr 1990 fór pólitískum bæjarstjórum að fjölga hér. Eva Marín segir að það hafi þá orðið algengasta fyrirkomulagið í allra stærstu sveitarfélögunum. „Þetta raskast aftur 2010 eftir kosningarnar þá. Þá kemur þessi krafa um faglega stjórnun, framkvæmdastjóra sem er menntaður í stjórnunar- eða viðskiptafræðum. Þá fáum við aftur svona faglega sveitarstjóra í þessi stóru bæjarfélög. Það sem við erum að sjá núna er ákveðið afturhvarf, til dæmis á Akureyri. Sá sem er í oddasæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn þar er búinn að gefa það út að hann sé tilbúinn til þess að taka að sér bæjarstjórastólinn. Það er ákveðið afturhvarf til þessa tímabils fyrir 2010.“  Finnst fólki þá ekki virka í svona stórum sveitarfélögum að hafa ópólitískan bæjarstjóra? „Ég held að þetta sé bara spurning um hvað við viljum. Það sem pólitískir bæjarstjórar hafa verið mest gagnrýndir fyrir er að það sé of mikil hætta á að það komi upp spilling, fyrirgreiðsla. Rannsóknir Gunnars Helga Kristinssonar, til dæmis, hafa sýnt að íbúar eru líklegri til að telja að það sé spilling þar sem er pólitískur bæjarstjóri heldur en þar sem er ópólitískur.“  

Upp og náð og miskunn meirihlutans komnir

Allir eiga ópólitískir bæjarstjórar það sameiginlegt að þeir eru upp á náð og miskunn meirihlutans í sveitarfélaginu komnir og geta verið látnir fjúka fyrirvaralaust. Starfsöryggið er ekki beisið. Er þá eitthvert vit í því að tala um að bæjarstjóri sé ópólitískur? Eva segir að það að ráðleggja meirihlutanum sé ekki það sama og að vera pólitískur ráðgjafi í stjórnmálabaráttu hans. Þessir embættismenn séu ekki sjálfstæðir. Þá sé mikilvægur hluti starfsins að vera pólitískur trúnaðarmaður meirihlutans og faglegur ráðgjafi. Það verði því að ríkja traust þarna á milli. „Ef það er ekki til staðar getur þessi aðili ekki verið í sínu starfi.“ 

Þriðjungur situr ekki út kjörtímabilið

Hún segir að bæði pólitískir og ópólitískir bæjarstjórar hafi sína kosti og galla. Þetta snúist einfaldlega um það hverju sveitarfélögin séu að leita eftir. Vilja þau sérfræðing í daglegum rekstri eða leiðtoga sem er með skapandi sýn á hvernig sveitarfélagið eigi að þróast til framtíðar. Eva Marín segir að stundum fari hugmyndir sveitarstjórans um það hvaða verkefnum hann eigi að sinna ekki saman við hugmyndir sveitarstjórnarinnar, þetta virðist vera einn áhrifaþáttur þegar sveitarstjórar eru látnir taka pokann sinn fljótlega eftir ráðningu. Hún segir að gera megi ráð fyrir því að í þriðjungi tilfella sitji bæjarstjóri sem ráðinn er eftir kosningar ekki út kjörtímabilið. Ástæðurnar geti þó auðvitað verið margar og stundum velji þeir sjálfir að hætta.

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV