Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Opnuðu pylsuvagn til að hafa atvinnu í Grímsey

10.07.2019 - 07:05
Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Fjölskylda í Grímsey hefur opnað veitingavagn við höfnina í eynni og selur ferðamönnum bæði pylsur og ís. Fjörutíu skemmtiferðaskip koma til Grímseyjar í sumar.

Grímsey hefur verið hluti af verkefni Byggðastofnunar um brothættar byggðir síðan 2015 og hefur ríflega tuttugu milljónum króna verið veitt til hinna ýmsu verkefna í eynni. Þar hefur hins vegar ekki tekist að snúa íbúaþróun við og nú er svo komið að um sextíu íbúar eiga lögheimili í Grímsey og aðeins um það bil þriðjungur hefur þar vetursetu.

Þrátt fyrir þessa þróun hefur lítil fjölskylda opnað pylsuvagn í Grímsey. Hugmyndin kviknaði því húsfreyjan þurfti að skapa sér atvinnu á meðan eiginmaður hennar sótti sjó frá Grímsey í sumar.

„Þetta var eiginlega bara smá brjálæði. Við vorum búin að hugsa og tala um þetta í mörg ár og svo bara fundum við þennan vagn og hann var bara keyptur. Þetta gerðist bara á núll einni,“ segir Harpa Þórey Sigurðardóttir, eigandi pysluvagnsins.

Auk þess að selja pylsur og ís leigja þau fjallahjól í eyjunni og á teikniborðinu er að leigja sæþotur til ferðamanna. Nýverið var Grímsey skilgreind sem hluti af Norðurstrandarleið og ferðamenn hvattir til þess að fara norður yfir heimskautsbaug sem liggur yfir eyjuna. Og það hafa margir komið.

„Rosa mikið, bæði flug, ferja og svo eru skemmtiferðaskipin, það er alltaf að aukast. Ég held að það séu fjörutíu sem koma hingað núna,“ segir Harpa Þórey. Spurð hvort ferðamennirnir kaupa mikið segir hún: „Það er allur gangur á því. Sumir kaupa ekkert, sumir kaupa helling og það er bara þannig.“

Pylsuvagninn verður opinn í allt sumar en lokar þegar hægist á ferðamannastraumnum. Þau vonast til að geta opnað aftur, enda hafi heimamenn líka tekið vel í þetta uppátæki.

„Þetta er náttúrulega geggjuð staðsetning á vagninum, að hafa hann hérna við höfnina. Þannig að þegar þeir eru að landa þá er stutt að koma og grípa eina pylsu. Það eru allir sáttir.“

Sækja smá orku?

„Akkúrat, halda svo áfram að landa. En þetta er bara geggjað. Okkur er rosa vel tekið,“ segir Harpa Þórey.