Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Opnað á umsóknir um heyútflutning til Noregs

03.08.2018 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf
Sökum mikilla þurrka á Skandinavíuskaga í sumar hafa norskir bændur sóst eftir því að flytja inn erlent hey. Matvælastofnun hefur undanfarnar vikur unnið með Mattilsynet, systurstofnun sinni í Noregi, að innflutningsskilyrðum fyrir útflutning íslensks heys þangað til lands og í dag voru lokaniðurstöður viðræðnanna birtar á heimasíðu MAST.

Bændur á þeim svæðum sem uppfylla innflutningsskilyrði geta nú sótt um heilbrigðisvottun og hafið ferlið fyrir útflutningsleyfi. Nokkur stór landbúnaðarsvæði uppfylla þó ekki skilyrðin vegna gildandi hafta um riðusmit, meðal annars Húna- og Skagahólf, Biskupstungnahólf, Ölfus, Hveragerði og Árborg. Að auki geta ábúendur bæja þar sem garnaveiki hefur greinst á síðastliðnum áratug ekki sótt um leyfið, en þeir eru um fjörutíu. 

Þeim sem huga á heyútflutning er einnig bent á almenn skilyrði Mattilsynet um lágmarks smithættu. Heyið verði að vera frá svæðum þar sem lítið sé um jórturdýr, húsdýraáburður ekki notaður og gras ekki slegið snöggt. Þá megi heyið ekki vera votverkað eða mengað jarðvegi.