Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Opna neyslurými í Reykjavík fyrir 50 milljónir

20.11.2018 - 22:18
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Breyta á lögum um ávana- og fíkni efni til þess að tryggja að hægt sé að opna neyslurými í Reykjavík fyrir langt leidda vímuefnanotendur. Í fjárlagafrumvarpinu sem liggur nú fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að 50 milljónum verði varið í verkefnið á næsta ári. Rauði krossinn á Íslandi mun sinna þjónustunni.

Markmiðið með opnun neyslurýmis er fyrst og fremst að vímuefnaneysla fari fram við öruggar og heilsusamlegar aðstæður. Þetta kemur fram í minnisblaði sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fjallaði um á ríkisstjórnarfundi í morgun og fréttastofa hefur undir höndum. Fyrirhugað er að leggja lagabreytingafrumvarp á lögum um ávana- og fíkniefni fyrir Alþingi í janúar á næsta ári.

Tillaga um neyslurými varð til í vinnu við mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu sem með skipun starfshóps árið 2014. Markmið neyslurýmisins er að skapa öruggan og heilsusamlegan vettvang fyrir vímuefnanotendur sem nota vímuefni í æð, enda hefur verið sýnt fram á að þeir sem eiga við mestan vímuefnavanda að etja stunda neyslu sína oft við „hættulegar og heilsuspillandi aðstæður“. Þetta stuðli að auknum skaða viðkomandi, veikindum og jafnvel dauða.

Svandís setti af stað vinnu í velferðarráðuneytinu fyrr á þess á ári við undirbúning að opnun neyslurýmis. Þar geti sprautufíklar haft aðgang að hreinum sprautum, nálaskiptiþjónustu og gjaldfrjálsri grunnheilbrigðisþjónustu. Rauði krossinn á Íslandi hefur fallist á að sinna þjónustunni og Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur lýst yfir vilja til þess að taka þátt í vinnunni. Ráðherra mun fela Sjúkratryggingum Íslands umboð til samningsgerða um opnun neyslurýmisins.