Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Opna fjöldahjálparmiðstöð í Vík

02.01.2018 - 20:07
Mynd með færslu
Fjöldi fólks hefur beðið í Víkurskála í dag vegna óveðurs. Mynd úr safni.  Mynd: RÚV / Reynir Örn
Opnuð hefur verið fjöldahjálparmiðstöð í íþróttahúsinu í Vík. Þangað streymir nú fólk sem ekki kemst leiðar sinnar þar sem búið er að loka hringveginum undir Eyjafjöllum og við Reynisfjall vegna óveðurs. Ekkert laust gistipláss var í Vík.

„Það eru um 70 manns í íþróttasalnum núna og fleira fólk streymir hingað inn. Við erum með bedda en þó ekki alveg fyrir hundrað manns,“ segir Ragnheiður Högnadóttir, sjálfboðaliði hjá Víkurdeild Rauða kross Íslands. 

Verslunin á staðnum hefur verið þeim liðleg svo að hægt verður að bjóða fólkinu upp á kaffi og eitthvert smáræði. Mestu máli skipti að fólk fái húsaskjól, að sögn Ragnheiðar. 

Hringveginum var lokað eftir hádegi í dag. Búist er við að áfram verði hvasst á þessum slóðum og samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er óvíst hvenær hægt verður að opna veginn aftur. Vestan megin er vegurinn lokaður við Hvamm, skammt frá Seljalandsfossi, en austan megin er lokað við Vík í Mýrdal. Ferðamenn sem voru við flugvélarflakið á Sólheimasandi lentu í vandræðum og sóttu heimamenn fólkið, þar sem það leitaði skjóls inni í flakinu.

Veðrið ætti að verða orðið skárra í fyrramálið, að sögn Elínar Bjarkar Jónasdóttur, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Rætt var við hana í kvöldfréttum sjónvarps. „Þarna fer saman ofankoma og hvassviðri og það veldur þessum loknum. Það dregur hratt úr ofankomunni í kvöld. Þetta ætti að verða skárra strax í fyrramálið.“ Á morgun verður nokkuð hvasst en ekki ofankoma. Aftur hvessir svo á þessum slóðum á fimmtudag. 

Um kvöldmatarleiti var setið í öllum sætum í Víkurskála í Vík og fólk var að leggja af stað í fjöldahjálparmiðstöðina í íþróttahúsinu. 

Frétt uppfærð klukkan 20:20 - Lögreglan á Suðurlandi greinir frá því á Facebook að rúmlega hundrað manns séu þegar komin í íþróttahúsið og að fleiri séu á leiðinni.

 

 

Mynd með færslu
Margir bílar eru utan við fjöldahjálparstöðina í Vík. Mynd: Bryndís Fanney.
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir