Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Opinberum framkvæmdum fylgi alltaf áhætta

08.11.2018 - 15:38
Mynd með færslu
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Fjármálaráðherra segir að opinberum framkvæmdum fylgi alltaf innbyggð óvissa og áhætta en að góður undirbúningur og aðhald sé lykilatriði. Þetta kom fram í máli ráðherra á Alþingi fyrr í dag og tilefnið er fréttir af framúrkeyrslu fjölmargra opinberra framkvæmda síðustu misseri.

Fyrsti liður á þingfundi dagsins, sem hófst klukkan 10:30 í morgun, voru óundirbúnar fyrirspurnir þingmanna til ráðherra. Fimm ráðherrar voru til svara, þeirra á meðal Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Hann fékk hins vegar enga fyrirspurn um eina af stærstu fréttum gærdagsins, stýrivaxtahækkun Seðlabankans, en sú ákvörðun bankans hefur fengið hörð viðbrögð víða í samfélaginu. En fjármálaráðherra fékk fyrirspurn um framúrkeyrslu opinberra framkvæmda sem sagðar hafa verið fréttir af undanfarna daga. Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar bar upp spurninguna. 

„Það eru ný dæmi sem eru hér algjörlega úr nútímanum má segja. Við erum með bragga í Vatnsmýrinni, við erum með listasafn í Listagilinu á Akureyri, við erum með Vaðlaheiðargöng sem liggja frá Eyjafirði yfir í Fnjóskadal, við erum með nýtt sjúkrahótel, “ sagði Jón Steindór

Bjarni sagði einhverja óvissu ávallt innbyggða í opinberum framkvæmdum. „Það er ávallt innbyggð einhver óvissa. Ytri aðstæður geta breyst og við erum svo sannarlega með risaframkvæmdir á prjónunum á næstu árum þar sem að skiptir öllu að það verði fullnægjandi aðhald og undirbúning. Má ég nefna hér tvö risamál, Landspítalann annars vegar og Keflavíkurflugvöll hins vegar, þar sem að framkvæmdaféð samanlagt fer langt yfir eitt hundrað milljarða, “

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV