Opinberir aðilar þurfa að þola meiri rýni

29.11.2018 - 16:48
Mynd:  / 
Á opinberum starfsmönnum hvílir ákveðin framkomuskylda, innan starfs sem utan, segir Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar. Ef meta eigi lögmæti þess að birta upptökur eins og þær sem náðust af samtali þingmanna Miðflokksins og Fólks flokksins þurfi að líta til ýmissa atriða. Þar vegist á tjáningarfrelsið og friðhelgi einkalífs en einnig þurfi að líta til þess hvort um sé að ræða opinbera aðila. Hér sé um að ræða þjóðkjörna fulltrúa á Alþingi Íslendinga sem tala á almannafæri.

Sá sem á upptökuna gæti þurft að svara til saka

Á upptökum sem fjölmiðlar hafa fjallað um í gærkvöldi og í morgun láta sex þingmenn úr Miðflokknum og Flokki fólksins falla margvísleg ummæli um aðra þingmenn og þá sérstaklega konur á Alþingi, í samræðum á veitingastað. Er leyfilegt að taka upp svona samtöl?

„Svona mál snertir á ýmsum atriðum og það eru mismunandi þættir sem þarf að huga að," segir Helga. „Persónuvernd hefur farið um allt landið nýlega og einmitt rætt um hættur sem felast í „interneti allra hluta". Snjalltæki sem eru í raun allt í kringum okkur eru mögulega með hljóðnema og smáforrit sem við hlöðum niður í símann okkar eru mögulega með aðgang að hljóðnemum hjá okkur, þannig að vinnsla persónuupplýsinga er farin að eiga sér mjög oft stað án þess að við vitum af því. Almenna reglan er sú að við eigum að fá að vita þegar við erum í upptöku og að við eigum að vera frædd nægilega þannig að eitt atriði hér er að sá sem þessa upptöku tók gæti þurft að svara til saka fyrir eitt og annað; hegningarlög gætu mögulega verið undir, fjarskiptalög og einnig persónuverndarlög."

Munur á samtölum á einkaheimili og á almannafæri

Hinn angi málsins, segir Helga, er það þegar frétta- eða fjölmiðlar fá í hendur upplýsingar sem þessar. „Þá eru farnir að vegast á tveir hagsmunir og tvö sjónarmið. Þá erum við að tala um tjáningarfrelsið og þá erum við einnig að tala um friðhelgi einkalífs og persónuvernd. Þannig að þarna eru tvö stjórnarskrárvarin réttindi sem þarf að vega og meta. Það sem þarf til dæmis að skoðast í þessu sambandi líka er hvort hér eru undir opinberir aðilar eða ekki, fólk sem er þekkt eða ekki. Eru samtölin tekin upp á einkaheimili eða almannafæri? Eins og hér virðist hafa átt sér stað, þá erum við að tala um þjóðkjörna fulltrúa á Alþingi Íslendinga sem tala á almannafæri. Þannig að þetta er bara matið sem þarf að eiga sér stað á fjölmiðlum og það liggja fyrir margar úrlausnir sem komast að þeirri niðurstöðu að opinberir aðilar þurfa að þola meiri rýni heldur en aðrir."

Í þessu sambandi sé rétt að árétta að á opinberum starfsmönnum hvíli ákveðin framkomuskylda, samkvæmt lögum um opinbera starfsmenn. „Þeir eiga að haga sér með ákveðnum hætti í starfi og utan þess. Þá er spurningin hvaða kröfur er hægt að gera til þjóðkjörinna fulltrúa. Væntanlega eru siðareglur sem þeim ber að fara eftir í starfi. En utan starfs sem innan, þegar um þjóðkjörna fulltrúa er að ræða, ég held við þurfum öll að vera sammála um það að á endanum þarf hver að bera ábyrgð á eigin gjörðum."