Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Opin gátt fyrir ólöglegt regnskógatimbur

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Starfsmenn Mannvirkjastofnunar hafa áttað sig á því að óprúttnir aðilar geta, fræðilega séð, nýtt sér Ísland sem þvottastöð fyrir ólöglegt regnskógatimbur, látið sem timbrið sé frá Bandaríkjunum eða Kanada, sem eru örugg upprunalönd, fengið pappíra stimplaða og komið timbrinu á markað í Evrópu. En hefur slíkt viðgengist? Það er ekkert sem bendir til þess en það er heldur ekki hægt að útiloka það því eftirlit hefur ekki verið til staðar. Nú á að loka þessari glufu.

Í fyrrahaust var timburreglugerð ESB lögfest hér á landi, en hún er frá árinu 2013 og felur í sér að allt timbur sem kemur á markað í Evrópu þarf að vera upprunavottað. 

„Þannig er að ólöglegt skógarhögg veldur bæði skógeyðingu og hnignun skóga og það hefur verið sýnt fram á að þetta orsakar um 20% af losun koltvísýrings í heiminum. Þetta ógnar líffræðilegri fjölbreytni og grefur undan sjálfbærri skógarstjórnun. Þes vegna hefur Evrópusambandið að setja upp regluverk þar sem menn reyna að sjá til þess að timbur sé upprunavottað, að við vitum hvaðan það er að koma. Að það sé ekki að koma ólöglegt timbur frá Amazon-skóginum fyrst til Íslands til þess að flytja það svo áfram til annarra Evrópulanda. Menn hafa gjarnan notað slíkar aðferðir til að lauma slíku ólöglegu timbri inn til Evrópu. Við teljum ekki að þetta hafi verið vandamál hingað til en við ætlum að halda vöku okkar hvað þetta varðar.“ 

Segir Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar. 

Ýtir undir fátækt og spillingu

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Amazon

Ólöglegt skógarhögg er fyrst og fremst vandamál í þeim löndum þar sem það fer fram, ógnar vistkerfi en líka samfélögum, ýtir undir spillingu og fátækt og eykur jarðvegseyðingu sem getur ýtt undir verðurhamfarir og flóð. Þetta eru einkum ríki í Suður-Ameríku, Mið-Ameríku og ríkjum í Afríku og Asíu. En ólöglegt skógarhögg fer líka fram innan Evrópu, svo sem í Póllandi og Rúmeníu.

Ákærður fyrir að myrða íbúa Amazon

Grænfriðungar gagnrýndu nýlega nokkur evrópsk og bandarísk fyrirtæki fyrir að skipta við brasilískt skógarhöggsfyrirtæki sem stundar ólöglegt skógarhögg. Forstjóri fyrirtækisins á því til viðbótar að hafa fyrirskipað morð og pyntingar á níu manns sem bjuggu á skógsvæðum sem fyrirtækið ásældist. Forstjórinn var ákærður í maí og síðan hafa fyrirtæki í Belgíu, Bandaríkjunum, Danmörku, Hollandi og víðar átt í viðskiptum við fyrirtækið. Í nýrri skýrslu frá Grænfriðungum saka þeir fyrirtækin um að kanna ekki uppruna timburs sem þau flytja inn til hlítar og brjóta gegn timburreglugerð ESB. Samtökin hverja stjórnvöld í Evrópuríkjum til þess að sýna sérstaka árverkni þegar kemur að brasilísku timbri, þar sem hætt sé við því að það sé afrakstur ólöglegs skógarhöggs og skylda fyrirtæki til þess að fá þriðja aðila til að kanna pappíra og gögn sérstaklega. 

Vinna að því að koma á eftirliti

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV

Mannvirkjastofnun hefur umsjón með framkvæmd laganna hér, á að sinna eftirlitinu og er nú að taka fyrstu skrefin við að koma því á. Þetta gæti orðið umfangsmikið verk, enda mæðir einna mest á ríkjum sem taka fyrst á móti timburvörum frá ríkjum utan EES, þurfa að tryggja að fyrirtæki sem flytja það inn hafi gengið úr skugga um að það sé löglegt.

Frá tannstönglum til viðardrumba

Mikael Svend Sigursteinsson, byggingartæknifæðingur hjá Mannvirkjastofnun, er einn þeirra sem vinnur að því að koma þessu eftirliti á. Í raun eru allar vörur sem búnar eru til úr timbri undir. Eftirlitið á þar með að ná yfir stílabækur, eldhúsinnréttingar og tannstöngla en líka drumba og spýtur um borð í skipum sem kunna að hafa viðkomu hér á leiðinni frá Bandaríkjunum eða Kanada til Evrópu. Hann segir að þetta sé enn allt á frumstigi og óljóst hvað nákvæmlega komi til með að heyra undir eftirlitið. Hann hefur átt einn fund með tollinum, þá hafi starfsmenn Mannvirkjastofnunar kynnt sér hvernig þessu eftirliti er háttað í nágrannalöndunum, til dæmis í Danmörku og Finnlandi, farið með í eftirlitsferðir.

Danskir kollegar ekki stressaðir

Mikael segir að starfsmenn Mannvirkjastofnunar hafi nefnt möguleikann á því að skógböðlar nýti sér Ísland við danska kollega. „Við nefndum þetta við Danina þegar við vorum þar, þeir gáfu ekki mikið út á það en það gæti hugsanlega verið eða orðið.“

En hvers vegna fóru starfsmenn Mannvirkjastofnunar að velta þessu fyrir sér?

„Landið er náttúrulega þannig staðsett að það er auðvelt að koma frá Ameríku, sem eru ekki áhættulönd, flutningur á timbri í gegnum þau væri tiltölulega auðveldur, að koma þeim til Íslands og fá þá leyfi til að halda áfram til Evrópu, þá væri það bara frjálst á evrópskum markaði.“ 

En er hægt að komast að því hvort þetta hafi tíðkast? Mikael telur það hugsanlegt, það fari eftir því hversu miklar upplýsingar sé hægt að fá hjá tollinum.

„Það væri þá gaman líka að sjá magnið sem hefur farið frá landinu, hvort það hefur yfirleitt farið eitthvað frá landinu. Eins og ég segi þá vitum við lítið um það hvað er að koma inn af timbri.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay

 

Þörf á að kynna fyrirtækjum nýtt regluverk

Starfsmenn Mannvirkjastofnunar hafa farið með dönskum og finnskum kollegum í eftirlitsferðir. Þar þurftu eftirlitsmenn til dæmis að hafa afskipti af fyrirtæki sem flutti inn eldhúsinnréttingar úr timbri og vissi ekkert hvaðan timbrið kom og var ekki kunnugt um reglurnar. Það átti að vera með upprunavottun og slíkar vottanir kalla á mikinn rekjanleika. Ljóst er að hér á landi er mikið verk óunnið við að kynna þetta nýja regluverk og gera fyrirtækjum ljóst hvaða kröfur eru gerðar til þeirra.

Mikael segir óljóst hversu erfitt það verður að sinna þessu eftirliti, hvort erfitt verði að átta sig á því, til dæmis, hvort pappírar með vörunum séu falsaðir. Hann reiknar með því að kerfið verði komið í gagnið á næsta ári. „Svo þurfum við bara að fínpússa það og vera í samstarfi við erlenda aðila, sjá hvernig þeim líst á þetta, hvort þetta sé nógu gott.“