Óperuheimurinn opnaður upp á gátt í bíósal

Mynd:  / 

Óperuheimurinn opnaður upp á gátt í bíósal

19.11.2018 - 14:36

Höfundar

Óperan Marnie, eftir Nico Muhly og með Dísellu Lárusdóttur í einu hlutverka, var sýnd í Sambíóunum á dögunum. Eydísi Blöndal skáldi þykir framtakið, að færa óperur nær almenningi með þessum hætti, vel heppnað. „Ég sat þarna með popp og pepsí og horfði á eitthvað sem ég hefði annars aldrei séð.“

Óperan Marnie er byggð á samnefndri skáldsögu Winstons Graham. Sagan gerist á sjötta áratugnum og fjallar um Marnie, dularfulla konu með myrka fortíð. Marnie stundar það að fara ránshendi um vinnustaði og skiptir um sjálf til að komast undan laganna vörðum. Einn yfirmanna hennar kemur upp um pretti hennar, en í stað þess að tilkynna ránið neyðir hann Marnie til að giftast sér. Höfundur óperunnar er Nico Muhly, sem ætti að vera Íslendingum kunnur en hann er einn stofnanda útgáfunnar Bedroom Community ásamt Valgeiri Sigurðssyni. Dísella Lárusdóttir fer með hlutverk í sýningunni sem eitt af hliðarsjálfum Marnie.

Fjallað var um sýninguna í Lestarklefanum, nýjum umræðuþætti um menningu og listir. Gestir þáttarins voru Eydís Blöndal, Þórhildur Þorleifsdóttir og Óttarr Proppé.

Mynd með færslu
 Mynd:
Eydís Blöndal, Þórhildur Þorleifsdóttir og Óttarr Proppé ræddu um menningu og listir við Önnu Gyðu Sigurgísladóttur.

„Mér finnst framtakið frábært. Af því að óperan þykir mér ekki vera aðgengilegur miðill,“ sagði Eydís Blöndal. „Mér finnst það skemmtilegur gjörningur að færa þetta svona nálægt manni. Ég sat þarna með popp og pepsí og horfði á eitthvað sem ég hefði annars aldrei séð.“

Íslensk kvikmyndahús, eins og Sambíóin Álfabakka, Kringlubíó og Bíó Paradís, bjóða upp á fjölda sýninga frá stórum óperu- og leikhúsum í Bandaríkjunum og Englandi. „Þetta brýtur veggi og múra og gefur manni aðgang að heimsmenningunni,“ segir Þórhildur Þorleifsdóttir. 

Óttarr Proppé tók undir það og bætti við að sýning í bíósal bjóði upp á annars konar upplifun, sem er að einhverju leyti betri en völ er á í óperuhúsum. „Við vorum að horfa á þetta í ofboðslega góðum hljóðgæðum, sennilega betri hljóðgæðum en mörg sæti í húsinu og við sáum örugglega betur á sviðið.“

Þórhildur hafði gaman af óperunni Marnie en fannst sagan heldur ómerkileg og ótrúverðug. „Þetta var faglega gert, sýningin stílhrein og fín. En það sem ég sakna, sem við tengjum við þegar við tölum um óperur, það er þessi þensla þar sem tilfinningaboginn er þaninn til hins ítrasta.“ Tónlistin hafi því ekki borið hana í miklar hæðir.

Óttarr sagði verkið misgott. „Ég átti erfitt með að komast inn í músíkina... en eftir hlé náði hún mér og það var innri dramatík í tónlistinni. Þá fannst mér ég líka upplifa söngvarana, sérstaklega aðalsöngkonuna, ótrúlega magnaður söngur og miklir listamenn. Á köflum fannst mér dansinn og hreyfingarnar stórkostlegar.“

Hægt er að horfa á Lestarklefann í heild sinni hér. Hann er á dagskrá klukkan 17:03 alla föstudaga, útvarpað í beinni á Rás 1 og sendur út í mynd á menningarvef RÚV.

Tengdar fréttir

Íslenskt mál

„Skítt veri með einhverjar smávillur“

Kvikmyndir

Góð tónlist bætir upp fyrir lapþunnt handrit

Menningarefni

Lestarklefinn – umræða um menningu og listir

Menningarefni

Ástir trölla, rappari í sjálfskoðun og Róf