Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Önnur andarnefjan dauð en flæðir að hinni

16.08.2018 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Þorsteinsson - RÚV
Önnur andarnefjan sem festist í fjörunni í Engey síðdegis er dauð. Fjöldi fólks er í Engey og hefur reynt að halda hvölunum á lífi þar til flæðir að í kvöld. Ekki tókst þó að bjarga annarri andarnefjunni. Farið er að flæða hratt að hinni andarnefjunni og er nú unnið að því að koma henni á kviðinn í von um að hægt sé að koma henni á flot þegar yfirborð sjávar rís.

Sýnt var beint frá björgunaraðgerðum í Engey í kvöldfréttum í sjónvarpi. Þar mátti sjá blóðpolla undir dýrunum og sár á þeim. 

„Þetta lítur ekkert sérstaklega vel út,“ sagði þá Edda Elísabet Magnúsdóttir, doktor í sjávarlíffræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur um hvali. „Þær eru búnar að vera hérna í ansi langan tíma, lifandi lengur en áætlað er að svona dýr þoli. Það er talað um tvo tíma en það eru komnir fimm tímar eða svo. Dýrin eru í miklu sjokki en það virðist vera mikill lífsvilji í þeim. Nú vorum við að velta þessari yfir á kviðinn svo hún myndi ekki særa sig meira á hliðinni. Nú bíðum við átekta að sjá hvort hún hafi lifað það af.“

Skömmu eftir að viðtalið var tekið varð ljóst að andarnefjan hefði ekki lifað af.

Á myndbandinu hér að neðan sem Grímur Jón Sigurðsson tók má sjá hvar fjöldi fólks snýr andarnefjunni á kviðinn í tilraun til að bjarga henni.

Mynd: Einar Þorsteinsson / RÚV

Djúpsjávarhvalir á grynningum

Andarnefjur eru djúpsjávarhvalir. Þó eru þekkt dæmi um að þær komi á grynningar. „Það eru ýmsar ástæður fyrir því sem við þekkjum. Það er til dæmis að þeir koma oft á þessum árstíma þegar þeir elta smokkfiskinn. Það er beitusmokkur sem þeir éta meðal annars, eins og grindhvalirnir komu hingað inn,“ sagði Edda Elísabet. Það er líka þekkt að andarnefjur flýi hættu inn á grunnsævi. „Þá fara þær oft inn að strandsvæðum hvort sem það er viljandi eða ekki. Þegar þær eru komnar inn á strandsvæði lenda þær oft í vandræðum með áttun. Þær nota bergmálsmiðun til að rata um, það er erfiðara í grynningum, svo eru hér sterkir straumar sem rugla þær í rýminu. Þetta er ekki þeirra náttúrulega búsvæði.“

Talað hefur verið um að andarnefjurnar hafi verið að elta makríl. Edda Elísabet sagðist ekki útiloka slíkt en að makríll væri ekki þekkt fæða þeirra, þótt svo þær hafi getað reynt slíkt á þessum slóðum.

Mynd: Einar Þorsteinsson / RÚV

Möguleiki þó líkurnar séu ekki með andarnefjunum

Talsverð sár eru á andarnefjunum. Edda Elísabet sagði þó líkur á að dýrin lifðu af ef þau kæmust í sjó. „Það fer allt eftir því hvaða innvortis áverkar hafa átt sér stað. Það er ómögulegt fyrir okkur að meta það. Við sjáum engin sérstök teikn um hvað er að gerast innra með þeim en þær gefa auðvitað undan eigin þunga hægt og rólega, þetta eru þriggja tonna dýr eða svo,“ sagði Edda Elísabet. „Ef þau komast á flot eru líkurnar ekki með þeim en það eru samt einhverjar líkur á að þær geti komist út, en þá þurfa þær að komast út úr flóanum.“

Fréttin var uppfærð 19:43.

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Þorsteinsson - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Þorsteinsson - RÚV