Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Öngþveiti við Seljalandsfoss

24.06.2015 - 19:28
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Aðstaða fyrir ferðamenn við Seljalandsfoss er löngu búin að sprengja utan af sér og veitingamaður óttast að þar verði alvarlegt umferðarslys. Unnið er að nýju deiliskipulagi fyrir svæðið.

Meira en þrjú hundruð og tuttugu þúsund ferðamenn skoða Seljalandsfoss árlega og þeim fjölgar stöðugt. Uppbygging á svæðinu við fossinn hefur þó engan veginn haldið í við fjölgun ferðamanna.

Bílaplanið við fossinn er fyrir löngu orðið allt of lítið. Veitingamaður þar segir umferðaröngþveiti myndast á hverjum degi. Um daginn voru tuttugu og tvær rútur á planinu á sama tíma og fjöldi ferðamanna leggur úti í vegkanti.

„Flesta daga hérna þá eru raðir 2-300 metra uppeftir í hvora átt sem hindrar rosalega aðgengi sérstaklega stærri bílanna, rútur og fleiri sem eiga erfitt með að komast inn á bílastæðið,“ segir Atli Már Bjarnason, framkvæmdastjóri Seljaveitinga.

Og hann óttast að þarna verði alvarlegt umferðarslys.

„Jú maður, því miður, er að óttast að eitthvað slæmt geti gerst en það hefur oft munað litlu hérna,“ segir Atli.

Við fossinn eru þrjú salerni, sem Atli Már segir allt of lítið. Þar myndast oft 50 til 60 manna raðir. Landeigendur við Seljalandsfoss hafa farið fram á að bílastæðið verði stækkað til muna og önnur aðstaða bætt. Til þess þarf nýtt deiliskipuag fyrir svæðið.

 „Já þetta er allt allt of lítið, eða sprungið bara, það er ósköp einfalt. Fjölgun hefur orðið það mikil,“ segir Atli.

En hvað segja ferðamenn um aðstöðuna?

­„Það mætti bæta aðstöðuna hérna. Þetta er mjög fallegur foss, en vinsældirnar eru greinilega gífurlegar. Það mættu vera betri bílastæði hérna og aðstaðan má alveg við umbótum, til dæmis salernisaðstaðan,“ segir Roger King, ferðamaður.

„Það vantar fleiri bílastæði, sýnist mér. Miðað við fjöldann sem er hérna núna. Eru ekki tvö baðherbergi þarna? Það er líklega ekki nóg,“ segir Bethy Kenworthy, ferðamaður.

Bílastæðið og göngustígar við fossinn tilheyra Rangárþingi eystra.

„Já, í sjálfu sér er ég sammála þessu, hins vegar erum við að gera allt sem við getum til að bregðast við þessum mikla ferðamannastraumi. Við erum núna að undirbúa og erum langt komnir með tillögur um breytingu á deiliskipulagi þannig að við getum mætt þessum mikla straumi ferðamanna með ýmsu móti en það er í sjálfu sér alveg rétt að við eigum í fullu fangi með þetta,“ segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra.

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV