Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ónæmar bakteríur drepast við eldun matvæla

06.01.2019 - 18:34
Hráar kjúklingabringur á diski með pasta og tómata í bakgrunni.
 Mynd: Stocksnap.io
Smit af sýklalyfjaónæmum bakteríum snýst mest um rétta meðhöndlun matvæla. Þetta segir sérfræðingur hjá Matvælastofnun. Bakteríurnar hafa greinst í íslenskum kjúklingum og svínum, en eru mun algengari erlendis. Þær drepast við suðu eða steikingu og því er meiri hætta á smiti af grænmeti en kjöti.

Ónæmi gegn sýklalyfjum hefur aukist í heiminum vegna stigvaxandi notkunar þeirra í dýrum og mönnum. Sumar bakteríurnar eru ónæmar fyrir einum flokki sýklalyfja, en fjölónæmar bakteríur eru ónæmar fyrir fleiri tegundum.  

Drepast við suðu eða steikingu

Í skýrslu starfshóps heilbrigðisráðherra frá 2017 segir að almennt sé talin lítil hætta á að bakteríurnar berist í fólk með kjötneyslu, því þær drepast við suðu eða steikingu. Annað gildi um grænmeti, ef það er borðað hrátt. Því megi færa rök fyrir því að líkur á smiti frá grænmeti geti verið meiri en frá kjöti.

Guðný Klara Bjarnadóttir, meistaranemi í lífeindafræði við HÍ, greindi í fyrra 416 grænmetis- og berjasýni í matvörumörkuðum á Íslandi, innflutt og íslensk. Mun meira var um ónæmar bakteríur á erlendu grænmeti en því íslenska, en engar greindust á berjum. 

Meira um smit í erlendum matvælum

Vigdís Tryggvadóttir, sérfræðingur hjá Matvælastofnun, segir allar rannsóknir benda til að erlendar afurðir beri meira af bakteríunum en íslenskar. 

„Við erum samt sem áður að sjá sýklalyfjaónæmar bakteríur í innlendri framleiðslu, bara í mun minna magni. Og ég veit að ráðuneytið er að safna gögnum og vinna að því að meta hvað sé hægt að gera til þess að lágmarka útbreiðslu þessara baktería á Íslandi,” segir Vigdís. 

Ónæmar bakteríur í íslenskum svínum og kjúklingum

Ónæmar bakteríur hafa greinst í kjúklingum og svínum hérlendis 2017. Í skýrslu heilbrigðisyfirvalda um sýklalyfjanotkun í mönnum og dýrum 
segir sóttvarnarlæknir að þetta sé áminning um að íslensk kjötframleiðsla geti líkt og erlend verið uppspretta sýklalyfjaónæmra baktería hjá mönnum.

Vigdís undirstrikar að neytendur þurfi að velja meðvitað og meðhöndla matvæli á réttan hátt. Brýnt sé að rannsaka fleiri dýraafurðir en alifugla og svín. „Og grænmeti og ávexti. Það er mjög mikilvægur flokkur sem við þurfum að fara að skoða núna.”

Með reglugerð sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setti í nóvember, um aukið eftirlit með sýklalyfjaónæmum bakteríum, verða rannsóknir á útbreiðslu bakteríanna hér efldar til muna, en þær hafa verið lengur stundaðar annars staðar í Evrópu.