Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ömurlegt ástand fuglastofna

26.06.2011 - 17:58
Varp margra sjófuglategunda hér á landi hefur misfarist á stórum svæðum. Algert hrun virðist vera í varpi lunda og kríu um sunnan og vestanvert landið. Ástandið er það versta sem fuglafræðingar hafa séð í áratugi.

Vísindamenn hafa farið um landið síðustu daga og vikur til að meta ástand fuglastofna og varp. Eins og fram kom í hádegisfréttum finnast vart kríuhreiður á svæðum á Snæfellsnesi, þar sem áður verptu þúsundir kríupara. Hið sama virðist uppi á teningnum varðandi lundann. Ástandið er mjög slæmt í Vestmannaeyjum, og eins um Suðurland og Vesturland segir Erpur Snær Hanssen sem er nýkominn úr lundarannsóknarferð hringinn í kringum landið. Ævar Pedersen fuglafræðingur segir ástandið hafa verið slæmt í fyrra, en í ár sé það enn verra. Hann segir ástandið í það heila afskaplega ömurlegt. Hann hafi séð jafn lélegt varp í mörg ár eða áratugi.

„Hjá sjófuglum er þetta yfirleitt afskaplega lélegt, hjá vaðfuglum virðist þetta vera frekar lélegt líka, að minnsta kosti eru þeir að verpa mjög seint og við höfum verið að kíkja á hrossagauka vestur í Flatey á Breiðafirði. Þar er ekki nema 20% af því sem ætti að vera. En svo virðist aftur á móti vera ágætis varp hjá smáfuglunum eins og maríuerlum og snjótittlingum,“ segir Ævar.

Varp bæði lunda og kríu virðist hafa farist fyrir að stórum hluta í vor á stórum svæðum. Báðar tegundir, og reyndar margar fleiri, éta gjarnan sandsíli, sem virðist að miklu leyti horfið, einkum í hafinu sunnan og vestan við landið.

Krían, eins og reyndar lundinn, byggir afkomu sína að miklu leyti á sandsíli. Vísindamenn úr Vestmannaeyjum kláruðu hringferð um landið í dag sem farin var til að meta viðgang lundans. Hann dafnar vel fyrir norðan, þar sem hann nær í loðnu, en ekki þar sem hann hefur treyst á sandsíli, sem fram á allra síðustu ár var krökt af í hafinu sunnan og vestan við landið. Sílið virðist að mestu horfið, og varpið hrynur um leið. Ástæðan er rakin til hlýnunar sjávar.