Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Omotrack - Mono & Bright

Mynd: Doddi / Omotrack

Omotrack - Mono & Bright

18.04.2017 - 10:44

Höfundar

Plata vikunnar á Rás 2, Mono and Bright frá hljómsveitinni Omotrack. Við erum bræðurnir Markús og Birkir Bjarnasynir. Við ólumst upp í Eþíópíu, meðal annars í litlu þorpi sem heitir Omo Rate. Þaðan kemur hugmyndin að nafni hljómsveitarinnar, Omotrack. Við höfum spilað og samið tónlist saman frá því að við vorum litlir. Tónlist er það sem við gerum og hefur alltaf verið hluti af okkur. Við þekkjum mjög vel inn á hvorn annan og erum nánast sammála um allt þegar kemur að því að semja og útsetja.

Við erum með ákveðið sound í huganum sem við þráum að koma frá okkur.
Formlega er bandið stofnað árið 2015 en í rauninni hefur það verið til frá því við munum eftir okkur.
Í mars 2015 varð fyrsta lag sveitarinnar, “Mono and Bright” til. Síðan þá höfum við samið fleiri lög og spilað víða um landið.
Við bræðurnir byrjuðum þetta verkefni tveir en smám saman hefur bæst í hópinn. Núna erum við sex talsins, við tveir og fjórir yndislegir blásturshljóðfæraleikarar. Brass soundið hefur kryddað lögin okkar og gert þau líflegri. Síðan er alls konar fólk í kringum okkur, rótari og tæknimenn, sem eru hluti af okkur.

Hljóðfæraskipan bandsins er:

Markús Bjarnason - Lagahöfundur, aðal söngvari og gítarleikari.

Birkir Bjarnason -Lagahöfundur, syntha- og hljómborðsleikari og söngvari.

Brass:

Gunnar Kristinn Óskarsson - Trompet

Gríma Katrín Ólafsdóttir - Trompet

Steinn Völundur Halldórsson – Básúna

Svavar Hrafn Ágústsson – Saxófónn

Í september 2016 gáfum við út okkar fyrstu breiðskífu. Titillag hennar er “Mono and Bright” þar sem það lag er upphaf Omotracks. Breiðsífan inniheldur níu frumsamin lög sem eru samin á Íslandi og í Eþíópíu.

Við bræðurnir vinnum vel saman og ákváðum að taka upp plötuna sjálfir. Við tókum okkur frí frá vinnu og skóla og eyddum tíma í að útsetja og fínpússa lögin. Að lokum fengum við frábæran hljóðmann, Adda 800, til þess að mixa og mastera plötuna.

Hægt er að nálgast plötuna okkar á netinu en við gáfum hana einnig að út á efnislegu formi. Við fórum okkar eigin leiðir og ákváðum að gefa hana út á USB-lykli í öskju sem inniheldur grafískar myndir, ein mynd við hvert lag.  Allar myndirnar voru teknar í Eþíópíu og settar í Omotrack búning. Platan er einnig fáanleg á vínyl.

Allar frekari upplýsingar má finna á Omotrack.com

 

Mynd: Omotrack / Facebook
Arnar Eggert og Andrea Jóns ræddu plötu Omotrack, Mono & Bright, í Popplandi 21. apríl 2017.