Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ómögulegt að standa í vegi fyrir verkefninu“

15.04.2019 - 12:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Sveitarfélögin tvö sem standa að undirbúningi stórskipahafnar í Finnafirði bera ekki neina fjárhagslegar skuldbindingar vegna verkefnisins að sögn sveitarstjóra Langanesbyggðar. Þó gæta þurfi að umhverfi og náttúru við slíkar framkvæmdir sé ómögulegt fyrir sveitarfélögin að standa í vegi fyrir svo stóru atvinnutækifæri.

Annað af tveimur félögum sem stofnuð hafa verið til að undirbúa stórskipahöfn í Finnafirði er hafnarsamlag. Það félag mun reka höfnina, ef af uppbyggingu hennar verður, og athafnasvæðið þar í kring. Þetta félag verður alfarið í eigu Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps.

Engin fjárhagsleg skuldbinding fyrir sveitarfélögin

Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, segir sveitarfélögin ekki taka á sig fjárhagslegar skuldbindar vegna þessa. „Nei, það eru engar fjárhagslegar skuldbindingar í samningunum gagnvart sveitarfélögunum. Að sjálfsögðu eru skuldbindingar sem varða það að við stöndum með verkefninu og þess háttar, en það eru engar fjárhagslega skuldbiningar inni í þessum samningum." Á undirbúningstíma verkefnisins komi allt fjármagn frá þróunarfélagi sem er að mestu í eigu þýska félagsins Bremenports og verkfærðistofunnar Eflu. „Eftir það þá mun rekstur, ef hann verður, þá mun hann fjármagna leigu til landeigenda." 

Ómögulegt að ætla að standa í vegi fyrir svona verkefni

Eins og fram hefur komið eru margir landeigendur afar gagnrýnir á þetta verkefni. Alþjóðleg hafnarstarfsemi með tilheyrandi iðnaði verði allt of mikið inngrip í náttúruna og passi engan veginn við þá búsetu sem er í Finnafirði í dag. „Ég sjálfur hef ekki áhyggjur kannski,“ segir Elías. „En ég hef nálgast þetta mál af mikilli varkárni, það er bara hlutverk okkar að gæta að því. En á sama tíma þá er eiginlega algerlega ómögulegt að ætla að standa algerlega í vegi fyrir svona verkefni sem gæti gerbreytt öllu svæðinu hér, fjölgað atvinnutækifærum og gert þetta á margan hátt allt öðruvísi, vonandi betra ef okkur tekst vel upp, til langrar framtíðar. Það er ómögulegt að standa í vegi fyrir því."