Ölvun og ólæti spilla annars góðri hátíð

Mynd með færslu
 Mynd:

Ölvun og ólæti spilla annars góðri hátíð

28.07.2013 - 14:33
Yfirlögregluþjónn á Húsavík segir ölvun og ólæti setja ljótan blett á Mærudaga. Hugsanlega þurfi að endurskoða fyrirkomulag hátíðarinnar fyrir næsta ár.

Tilkynnt var um fjórar líkamsárásir til lögreglunnar á Húsavík í nótt en í bænum stendur nú yfir hátíðin Mærudagar. Að sögn Sigurðar Brynjúlfssonar, yfirlögregluþjóns á Húsavík, var nóttin mjög erilsöm, mikil ölvun og umtalsverð illindi. Einn af þeim sem varð fyrir líkamsárás var fluttur á sjúkrahús með alvarlega áverka í andliti. Fangaklefar á Húsavík eru fullir eftir nóttina og segir yfirlögregluþjónn þetta setja ljótan blett á annars góða hátíð.

„Það sem að fólk hér er að sækjast eftir með því að halda Mærudaga, þessi fjölskyldustemming og þetta viðmót sem er hér og hefur verið alveg frá því á fimmtudag, svona yfir daginn, það hefur gengið alveg frábærlega og verið mjög góð og fín skemmtun. En það er þessi fylgifiskur, sem er þetta andlit sem við sjáum eftir miðnætti, það hefur ekki gengið nógu vel og þar myndi maður vilja sjá eitthvað allt annað,“ segir Sigurður. Aðspurður segir hann koma til greina að endurskoða fyrirkomulag hátíðarinnar fyrir næsta ár. „Persónulega finndist mér alveg fyllilega ástæða til þess að endurskoða þetta. Þetta er ekki það sem menn eru að sækjast eftir með að halda þessa hátíð. Þetta er einhver fylgifiskur sem menn myndu mjög gjarnan vilja vera lausir við,“ sagði Sigurður Brynjúlfsson, yfirlögregluþjónn á Húsavík.

Tengdar fréttir

Dóms- og lögreglumál

Líkamsárásir og mikil ölvun á Húsavík