Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ólöf: Viðræðunum verður að fara að ljúka

17.12.2016 - 18:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að stjórnarmyndunarviðræðum verði að fara að ljúka. Forsvarsmenn flokkanna þurfi að geyma málefni sem ágreiningur er um og einbeita sér að brýnustu málunum.

Ekki hefur enn tekist að mynda ríkisstjórn, þótt þrír hafi fengið umboð forseta til að reyna stjórnarmyndunarviðræður. Rúmlega einn og hálfur mánuður er frá kosningum.

„Þetta er búin að vera býsna flókin staða og tekið töluverðan tíma,“ segir Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. „Mér finnst eðlilegt að menn tali um að hlutirnir geta tekið tiltekinn tíma en við getum verið sammála um að nú fer að koma að því að við þurfum að sjá fyrir endann á þessu.“

„Við vitum alveg hvar skóinn kreppir“

Ólöf segir mikilvægt að menn tali saman og séu opnir.

„Opnir hver fyrir öðrum og öllum flokkum. Mér finnst við svolítið hafa verið læst inni í ákveðinni stöðu og ég hefði viljað sjá að menn væru reiðubúnir til þess að opna svolítið faðminn og hugsa: „Bíddu hvað getum við gert til að ná hér starfhæfri ríkisstjórn?“ Þannig að við komumst áfram með þau mikilvægu verkefni sem hér bíða. Og það eru fyrst og fremst þessi stóru verkefni í mínum huga, á sviði efnahagsmála og innviðauppbyggingar.“

Hver er óskaniðurstaða þín, ef Sjálfstæðisflokkurinn á að taka þátt í að mynda ríkisstjórn?

„Mín óskaniðurstaða er bara þessi, að við náum starfhæfri og góðri ríkisstjórn sem getur tekist á við þessi verkefni, að halda stöðugleika í landinu og hefja uppbyggingu í innviðahlutum. Og þar erum við að sjálfsögðu að tala um heilbrigðismál, samgöngu- og ferðamál og slíka hluti. Ég held að við vitum alveg hvaða mál þetta eru. Og einbeitum okkur að því sem brýnast er. Geymum hluti þar sem meiri ágreiningur er þar til síðar. Við erum núna búin að vera í þessu í margar vikur og við vitum alveg hvar skóinn kreppir. Ég held að við ættum að horfa þannig á þetta.“

Áttu þér einhvern draumasamstarfsflokk í ríkisstjórn?

„Nei ég á bara slíka draumasamstarfsmenn sem vilja horfa svona á þessa hluti. Og ég er opinn fyrir öllum í því. Mér finnst skipta máli að þetta sé starfhæft og öruggt og menn geti unnið saman. Og treysti hvor öðrum. Traust skiptir gríðarlega miklu máli í stjórnmálum. Við þekkjum það,“ segir Ólöf.