Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Öllu fé slátrað sem fór yfir Blöndu í sumar

11.09.2017 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson
Á fjórða hundrað fjár sem fór yfir sjúkdómavarnarlínu Blöndu í sumar verður slátrað í haust, samkvæmt ákvörðun Matvælastofnunar. Oddviti Húnavatnsshrepps segir vinnubrögðin óboðleg og líklegt að bændur kæri ákvörðunina. 

Áin Blanda í Austur-Húnavatnssýslu er í flokki varnarlína vegna sauðfjársjúkdóma og er óheimilt að flytja fé þar yfir. Litlar varnir eru þó við ána, en eftir að Blanda var virkjuð er hún þurr á stórum kafla og auðvelt fyrir fé að komast yfir. Síðustu ár hefur verið veitt undanþága, þannig að fé úr fyrstu göngum megi lifa þrátt fyrir að hafa farið yfir, en því er ekki að heilsa í ár. Matvælastofnun sendi bændum bréf fyrir helgi og tilkynnti að slátra þurfi öllu fé sem farið hefur yfir ánna í sumar. Í réttum um helgina kom í ljós að það er á fjórða hundrað fjár. 

Ofbýður vinnubrögðin

„Mönnum ofbýður alveg vinnubrögðin og töluvert mikil reiði útaf þessu, af því það eru búin að vera bréfaskriftir í allt sumar til ráðuneytisins og reynt að fá einhver svör en það er bara eins og það gangi ekki,“ segir Þorleifur Ingvarsson, sauðfjárbóndi og oddviti Húnavatnshrepps.

Hann segir að riðutilfelli í Skagafirði í fyrra geri það að verkum að harðar sé tekið á málinu. Hins vegar sé það ábyrgð Matvælastofnunar að koma upp vörnum og á meðan þær eru ekki til staðar sé ósanngjarnt að refsa bændum, sem verði fyrir tjóni vegna þessa. „Það getur þýtt náttúrulega ákveðið tjón ef menn eru að missa mikið af ungu fé. Mér þætti það ekki ótrúlegt að þetta verði kært,“ segir Þorleifur.  

Ekki náðist í Matvælastofnun við vinnslu fréttarinnar. 

 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV