Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Öll sek í stóra markaðsmisnotkunarmálinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hæstiréttur staðfesti í dag sektardóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir sex af níu fyrrverandi stjórnendum Kaupþings fyrir stórfellda markaðsmisnotkun og umboðssvik en þyngdi dóm Hreiðars Más Sigurðssonar og gerði honum sex mánaða hegningarauka. Þá sakfelldi Hæstiréttur tvo sakborninga sem sýknaðir voru í héraði. Þar með er ljóst að öll níu voru sakfellt í Hæstarétti.

Stjórnendur Kaupþings frömdu umboðssvik og markaðsmisnotkun, ásamt því að stefna fjármunum bankans í verulega hættu, þegar þeir lánuðu félögum sem hvorki áttu aðrar eignir en hlutabréf né voru í rekstri, umtalsverða fjármuni á árunum 2007 til 2008. Þetta kemur fram í dómi Hæstaréttar yfir níu fyrrum stjórnendum og starfsmönnum Kaupþings, en dómur féll í málinu í dag. Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, hlaut þyngsta dóminn, eða fjögurra og hálfs árs fangelsi.

Hreiðar Már Sigurðsson við málflutning í Al Thani-málinu í Hæstarétti. Mynd úr sjónvarpsupptöku.
 Mynd: RÚV
Hæstiréttur dæmdi Hreiðar Má Sigurðsson til 6 mánaða hegningarauka

Ein umfangsmestu réttarhöld sögunnar

Dómur í málinu féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í júní 2015. Réttarhöldin voru þau umfangsmestu í íslenskri réttarsögu. Málsmeðferðin stóð frá því í apríllok 2015 til júníloka sama ár. Um það bil fimmtíu vitni voru leidd fram en réttarhöldin snérust um sýndarviðskipti níumenningana með hlutabréf í Kaupþingi. Í ákæru sérstaks saksóknara er því haldið fram að blekkingar og sýndarmennska hafi verið grunnur þessara umfangsmiklu viðskipta.

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd/RÚV - RÚV
Ingólfur Helgason fékk 4 1/2 ár. Sigurður Einarsson hlaut árs hegningarauka

Fjögurra og hálfs árs dómur yfir Ingólfi staðfestur

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, var í héraði dæmdur í eins árs fangelsi í stóra markaðsmisnotkunarmálinu. Hreiðar Már Sigurðsson var einnig sakfelldur, en honum var ekki gerð refsing umfram þann fangelsisdóm sem hann hlaut í Al-Thani málinu. Hæstiréttur dæmdi hann hins vegar til sex mánaða hegningarauka.

Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, hlaut fjögurra og hálfs árs dóm

Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, var sýknaður í héraði en sakfelldur í Hæstarétti. Honum var ekki gerð refsing.

Bjarki Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána Kaupþings, fékk tveggja og hálfs árs dóm.

Björk Þórarinsdóttir, sem sat í lánanefnd Kaupþings, var sýknuð í héraði en sakfelld í Hæstarétti. Henni var ekki gerð refsing.

Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi yfirmaður eigin viðskipta Kaupþings, hlaut tveggja ára skilorðsbundin dóm.

Pétur Kristinn Guðmarsson og Birkir Snær Björnsson, fyrrverandi starfsmenn eigin viðskipta, voru dæmdir í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hæstiréttur snéri við sýknudómi yfir Magnúsi Guðmundssyni