Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Öll mötuneyti í grunnskólum Kópavogs nema eitt lokuð

10.03.2020 - 08:30
Innlent · Efling · Verkfall
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flestir matráðar grunnskóla Kópavogs eru í Eflingu, því eru öll mötuneyti lokuð nema í Smáraskóla. Flest grunnskólabörn í Kópavogi þurfa að koma með nesti að heiman á meðan verkfallið stendur yfir. Þá hefur verkfallið áhrif á ræstingar í bæði leik- og grunnskólum.

Þrátt fyrir að Efling hafi samið við Reykjavíkurborg í nótt og verkfalli þar aflýst stendur enn verkfall utan Reykjavíkur; í Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi, Hveragerði og Ölfus þar sem Efling á eftir að semja við Samband sveitarfélaga. Af þessum sveitarfélögum starfa lang flestir Eflingarliðar hjá Kópavogsbæ eða um 230. 

Kópavogsbær er að skoða hvernig skólahald skerðist vegna þessa. Allt ræstingarfólk er í verkfalli í Kársnesskóla, Álfhólsskóla, Kópavogsskóla og Salaskóla. Ákvarðanir um mögulegar lokanir í skólum verða teknar í samráði við heilbrigðiseftirlit að því er kemur fram í skriflegu svari upplýsingafulltrúa Kópavogsbæjar til fréttastofu.

Þá er allt ræstingarstarfsfólk leikskólanna Furugrund, Fífusalir, Rjúpnahæð í verkfalli og að hluta í Kópasteini. Aðrir leik- og grunnskólar eru með verktaka í ræstingu og starfsfólk þeirra fer ekki í verkfall. Eflingarfólk sinnir líka gæslu í frímínútum. 

Nærri 40 starfsmenn í heimaþjónustu eru í verkfalli. Einn er á undanþágu og sinnir brýnustu innlitum til skjólstæðinga en að öðru leyti fellur þjónustan niður. Auk þess verður skert vetrarþjónusta, umhirða á og við stofnanir í Kópavogi og útkeyrsla á sorptunnum til fyrirtækja og einkaaðila svo dæmi séu tekin.

Verkfallið nær líka til um 20 Eflingarliða hjá Seltjarnarnesi, og samtals um 20 hjá Mosfellsbæ, Ölfusi og Hveragerðisbæ. Áhrifin þar eru minniháttar.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV