Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Öll loðnan vestan og norðan við landið

07.01.2016 - 18:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Allur veiðistofn loðnu virðist halda sig úti af Vestfjörðum og vestanverðu Norðurlandi. Ágæt mynd er komin á útbreiðslu loðnunnar og næstu daga á að mæla hversu mikið er á leitarsvæðinu. Hafís og vont veður hefur takmarkað yfirferð rannsóknarskipanna í vetur.

Tvö rannsóknarskip Hafrannsóknarstofnunar og þrjú veiðiskip hafa undanfarið verið við loðnumælingar en í gær varð að gera hlé vegna veðurs. Frá því í haust er búið að leita á Grænlandssundi, úti af Vestfjörðum, Norðurlandi og norðanverðum Austfjörðum.

Engin loðna á austursvæðinu
Nú hefur tekist að mæla útbreiðslu loðnunnar á þessu svæði. Engin loðna sást undan Austur- og Norðausturlandi og hvergi hafa fundist þéttar lóðningar af gönguloðnu. „Það hefur kannski ekki sést mikil loðna ennþá, en það þarf að skoða þessi svæði betur til að hægt sé að útiloka það,“ segir Birkir Bárðarson, leiðangursstjóri.

Þriðja tilraun til að mæla stofninn
Sighvatur Bjarnason VE mun halda áfram að aðstoða rannsóknarskipin. Það er enn bræla á leitarsvæðinu, en skipstjórarnir vonast til að geta lagt af stað í kvöld. Nú er gerð þriðja tilraun til að mæla loðnustofninn í vetur. „Það er bara búið að vera mjög erfitt,“ segir Birkir. „Búið að vera ís og vond veður sem hafa takmarkað okkar yfirferð.“

Vonast til að ná góðri mælingu næst
En eftir næstu yfirferð vonast hann til þess að hægt verði að meta betur hversu mikil loðna er á ferðinni. Það sé alltaf erfitt að meta hlutina fyrirfram þegar loðnan er annars vegar. „Ég reyni bara að vera bjartsýnn og lifi í þeirri von að okkur takist að ná vel yfir svæðið sem loðnan er á og vonandi bara náum við góðri mælingu,“ segir hann.