Öll framleiðsla á Bakka legið niðri í 10 daga

19.07.2018 - 11:55
Mynd með færslu
 Mynd: PCC Bakki Silicon
Enn hefur ekki tekist að gangsetja ofn kísilverksmiðju PCC sem stöðvaðist í eldsvoða fyrir tíu dögum. Forstjórinn segir það mikil vonbrigði að framleiðslan skyldi stöðvast. Ekki er komið í ljós hvenær verksmiðjan verður gangsett á ný.

Níunda júlí var allt tiltækt slökkvilið í Norðurþingi kallað að verksmiðju PCC á Bakka. Þá logaði eldur í ofnhúsi verksmiðjunnar. Greiðlega gekk að slökkva eldinn og skemmdir reyndust minni en óttast var.

Óljóst hvenær verksmiðjan fer aftur í gang

Annar af tveimur ofnum verksmiðjunnar var nýlega kominn í fullan rekstur. Hann stöðvaðist og framleiðslan þar með. Og þannig er staðan enn þá, tíu dögum eftir að eldurinn kom upp. „Ég get ekki alveg svarað því hvenær verksmiðjan fer í gang,“ Segir Hafsteinn Viktorsson, forstjóri PCC Bakki Silicon. „Við nátturulega erum að keppast að því að koma henni í gang sem fyrst. Ég reikna með að það sé talið í dögum en ekki vikum hvenær verður sett í gang."

Gætu hafa tapað yfir 400 tonna framleiðslu

Fram hefur komið að við hvern klukkutíma sem slökkt er á ofni verksmiðjunnar tapist um tvö tonn kísils. Samkvæmt því hefur verksmiðjan orðið af yfir fjögur hundruð tonnum af framleiddum kísli þessa daga sem hún hefur verið stopp. „Það náttúrulega munar um framleiðslu á hverjum degi. En okkar viðskiptavinir náttúrlega skilja það að þetta er eitthvað sem enginn ræður við og getur alltaf komið upp. Þannig að þeir sýna okkur þolinmæði, en það liggur á að komast af stað aftur."   

Ljóst að gera þurfi breytingar í kjölfar brunans

Hafsteinn segir að ljóst að einhverjar breytingar verði gerðar innanhúss í kjölfar brunans. „Öll verksmiðjan er náttúrulega brunahönnuð og það er samþykkt brunahönnun fyrir öllu. En auðvitað verður allt endurskoðað og örugglega verða gerðar einhverjar umbætur, ég held að það sé ekki nokkur spurning. Sérfræðingar eru ennþá að klára sína vinnu og tryggingafélagið er hér bara í dag að klára sina rannsókn. Og svo kemur það í ljós hvað við munum breyta."

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi