Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Öll framboðin sextán uppfylltu skilyrði

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Öll sextán framboðin til borgarstjórnarkosninga í Reykjavík í vor uppfylltu skilyrði til framboðs. Minniháttar athugasemdir voru gerðar hjá fimm listum. Aldrei hafa svo margir flokkar boðið fram í borginni.

Framboðsfrestur rann út í gær. Yfirkjörstjórn lauk yfirferð gagna síðdegis í dag. Frambjóðandi í 7. sæti á lista Íslensku þjóðfylkingarinnar uppfyllti ekki skilyrði um kjörgengi og var því strikaður út af listanum. Minniháttar athugasemdir voru gerðar við framboð Vinstri grænna, Flokks fólksins, Sjálfstæðisflokksins, Karlalistans og Íslensku þjóðfylkingarinnar. 

„Niðurstaðan var sú að það voru gerðar minniháttar athugasemdir við gögn hjá fimm framboðum. Þau náðu svo öll að skila fullnægjandi gögnum fyrir tilskilinn frest þannig að öll framboðin eru lögleg og bjóða sig fram,“ segir Eva B. Helgadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík. 

Samkvæmt reglum skulu að lágmarki vera 23 frambjóðendur á hverjum lista. Þá þarf hvert framboð að fá undirskrift að minnsta kosti 160 meðmælenda. Í síðustu borgarstjórnarkosningum voru framboðin átta. Árið 1918 voru þau 18 en þá voru einstaklingar í framboði. Eftir að núverandi kosningakerfi var tekið upp hafa framboðin aldrei verið svo mörg í Reykjavík. Það var því í nógu að snúast hjá yfirkjörstjórn. 

„Hér er náttúrulega ansi öflugur hópur og reynslumikill þannig að það er ekki síst þeim að þakka, góðum undirbúningi og líka aðstoð þeirra við framboðin í aðdraganda þessa sem er því að þakka að öll þessi framboð náðu að skila þessum gögnum. Það þurfti ekki að kalla út auka mannskap en það þurfti auka skipulagningu,“ segir Eva.  

Listabókstafi framboðanna má sjá á vef Reykjavíkurborgar. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir