Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Öll börn í umsjá landamærayfirvalda til læknis

27.12.2018 - 05:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Bandarísk landamærayfirvöld hafa gefið fyrirmæli um að öll börn í þeirra umsjá skuli undirgangast læknisskoðun hið fyrsta. Ákvörðun um þetta var tekin eftir að átta ára drengur frá Gvatemala, sem vistaður var í öryggisbúðum landamærayfirvalda í Nýju Mexíkó, lést á aðfangadagskvöld. Hann hafði þá verið í öryggisbúðunum í tæpa viku. Fyrr í þessum mánuði lést sjö ára gömul stúlka, líka frá Gvatemala, í öðrum búðum landamærayfirvalda.

Í tilkynningu Landamærastofnunar Bandaríkjanna segir að gripið verði til róttækra aðgerða á allra næstu dögum og vikum til að tryggja bætt eftirlit með heilsufari þeirra barna sem tekin eru í umsjá landamærayfirvalda, til að draga úr líkum á að sagan endurtaki sig. Til þess þurfi þó hvort tveggja fjármagn og samstarf við aðrar opinberar stofnanir, svo sem strandgæsluna, heilbrigðisráðuneytið, varnarmálaráðuneytið og almannavarnir. Um 1.500 heilbrigðisstarfsmenn séu að störfum hjá landamærayfirvöldum nú þegar, sem flytji tugi veikra barna á sjúkrahús á degi hverjum.