Útvarpsstöðin KEXP, frá Seattle í Bandaríkjunum, hefur um árabil útvarpað tónleikum beint frá Kex Hostel til hlustenda sinna, sem vegna tímamismunarins fá hana beint í æð snemma að morgni.
„Hlustendur okkar elska góða tónlist, þeir vilja heyra bestu tónlistina hvar sem hún er, hvaðan sem hún kemur,“ segir Kevin Cole, dagskrárgerðarmaður hjá KEXP. „Tónlistarsenan er svo mögnuð, hér eru ótrúlegar tónlistargersemar og Airwaves er frábær hátíð, hún er svo vel skipulögð að því að leyti að íslenskar hljómsveitir eru settar í forgrunn og svo eru flottar erlendar hljómsveitir fluttar inn, til dæmis heimsfræg bönd eins og The Sonics og Digable Planets, sem eru einmitt frá Seattle. Hlustendum okkar finnst spennandi að uppgötva nýja tónlist og hljómsveitir sem þeir hefðu annars ekki heyrt í.“