„Öll áhersla á að ljúka rannsókninni“

18.01.2016 - 14:56
íslenskur sjúkrabíll.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
„Við leggjum alla áherslu á að ljúka rannsókn slyssins áður en farbann erlenda ökumannsins rennur út“, segir Þorgrímur Óli Sigurðsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurlandi. Ökumaðurinn er undir sterkum grun um að hafa valdið mannsbana af gáleysi í árekstri tveggja bíla í Öræfum á öðrum degi jóla. Japanskur ökumaður hins bílsins lést og kona hans og tvö börn slösuðust.

Farbann mannsins rennur út 1. mars. Til þess að hægt verði að úrskurða hvort gefin verði út ákæra, verður að ljúka rannsókninni tímanlega fyrir mánaðamót. „Við verðum að hafa öll gögn fyrir þann tíma. Við bíðum niðurstaðna úr þremur þáttum rannsóknarinnar. Sérfræðingar vinna að bíltæknirannsókn, hraðaútreikningum og efnarannsóknum“, segir Þorgrímur Óli.

Vitni bera að maðurinn hafi ekið á mikilli ferð inn á einbreiða brú þar sem fyrir var annar bíll. Í greinargerð Lögreglustjórans á Suðurlandi sem lögð var fram þegar úrskurðað var um farbann segir að málsgögn bendi til maðurinn hafi ekið yfir hámarkshraða áður en slysið varð. Samkvæmt þeim hafi bíll mannsins verið á mun meiri hraða en sá sem fyrir var á brúnni. 

Lögreglan á Suðurlandi hefur að sögn miklar áhyggjur af umferðarhraða á leiðinni frá Vík til Hafnar í Hornafirði. Mörg umferðarslys urðu á þessari leið á nýliðnu ári. Átján ökumenn voru teknir fyrir of hraðan akstur á Suðurlandi í þar síðustu viku, flestir á veginum á milli Víkur og Hafnar.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi