Óljós sáttmáli að mati stjórnarandstöðu

30.11.2017 - 19:39
Mynd: RÚV / RÚV
Talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna lýsa takmarkaðri ánægju með málefnasáttmála nýju ríkisstjórnarinnar. Formenn Samfylkingarinnar og Flokks fólksins telja lítið gert fyrir efnaminna fólk og þingflokksformaður Pírata segir kjósendur svikna um stjórnarskrá. Þingmenn Miðflokksins og Viðreisnar segja óljóst hvað sáttmálinn merki.

Tekjumeira fólk græðir mest á skattalækkun

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að það sé ýmislegt ágætt í stjórnarsáttmálanum en segist hafa áhyggjur af veikri tekjuöflun ríkissjóðs ef setja eigi peninga varanlega inn í heilbrigðis- og menntakerfi. „Þá finnst mér skrýtið að skuli ekki ráðist í tekjujöfnun í skattkerfinu. Það á að lækka lægra þrepið sem virkar þannig að þeir sem eru lægst launaðir og þurfa mest á þessu að halda fá fjögur þúsund á mánuði meðan við sem erum með meira fáum sextán þúsund.“ Þá segir hann athyglisvert að ráðast eigi í bráðaaðgerðir vegna vanda sauðfjárbænda en aðeins gera úttekt á vanda fátækra.

Ósigur fyrir stjórnmálasiðferðið

„Mér finnst myndun þessarar ríkisstjórnar ákveðinn ósigur fyrir stjórnmálasiðferðið í landinu. Enn og aftur á að leiða Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda og enn og aftur á hann ekki að bera ábyrgð á þeim gerðum sem sprengja ríkisstjórn eftir ríkisstjórn í þeirra umboði,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata. Hún segir líka áhyggjuefni að svíkja eigi kjósendur um nýja stjórnarskrá með því að henda henni í nefnd. Þá lýsti hún áhyggjum af því að Sigríður Á. Andersen fari áfram með útlendingamál og Bjarni Benediktsson með mál sem snúi að skattaskjólum.

Einu sinni minnst á fátækt

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, óskar nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og vonar að hún sitji kjörtímabilið á enda því löngu sé orðið tímabært að stjórnmálamenn sýni kjósendum að þeir séu til þess fallnir að stýra landinu. Hún sagði lítið talað um fátækt í sáttmálanum og komi sjálft orðið fátækt aðeins einu sinni við sögu í sáttmálanum þó vitað sé hversu alvarleg staðan er. Hún segist bíða spennt eftir að sjá fjárlagafrumvarp nýju ríkisstjórnarinnar og áherslur þeirra.

Fátt fjármagnað

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, segir fátt fast í hendi í stjórnarsáttmálanum. „Það er fátt sem er fjármagnað. Það er fátt sem er ákveðið.“ Það er ekki tekið á stóru málunum, svo sem styrkingu orkukerfisins, segir Gunnar Bragi.

Almennt orðaður sáttmáli

„Sáttmálinn ber merki þeirra málamiðlana sem þarna er verið að leiða saman,“ segir, Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar. Hann segir ánægjulegt að kona verði forsætisráðherra í annað sinn á tæpum áratug. Um stjórnarsáttmálann segir Þorsteinn að hann sé almennt orðaður. Það eigi því eftir að koma betur í ljós hvað komi út úr honum, meðal annars þegar fjárlagafrumvarpið verður lagt fram. Þá skýrist hversu ábyrg ríkisfjármálin verði.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi