Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Olíuleit á Drekasvæðinu heldur áfram í sumar

19.04.2016 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Eykon - Heiðar Guðjónsson - Oceanic Challanger á Reyðarfir
Olíuleit heldur áfram á Drekasvæðinu í sumar og ætlar Eykon Energy að gera út rannsóknarskip til botnmælinga ásamt norskum og kanadískum olíufélögum. Vegna þess hve fáir ráðast á olíuleit um þessar mundir fást mælingarnar á algjörum útsöluprís, segir Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Eykon.

Hann segir að olíuleitinni miði vel og um mitt sumar verði skip send á Drekasvæðið til sambærilegra rannsókna og gerðar voru í september. Þá var hluti svæðisins rannsakaður samkvæmt sérleyfi Eykon, kínverska ríkisolíufélagsins CNOOC og norska ríkisolíufélagsins Petoro. Enn er unnið úr þeim gögnum en nú verður annað og minna svæði rannsakað í samstarfi við Petoro og kanadíska olíufélagið Ithaca. „Við erum að láta mæla betur botninn í kringum þessar tvær mögulegu olíulindir. Ef þessar mælingar styðja okkar tilgátur eru þær gríðarlega stórar,“ segir Heiðar.

Mælitækin 10 km löng

Rannsóknarskip sigli yfir svæðið og dragi kapla sem eru upp undir 10 kílómetra langir. Þeir taka við hljóðbylgjum sem bergmála af botninum og gefa vísbendingar um hvað kunni að leynast allt að þúsund metrum þar undir. Rannsóknir sem þessar eru alla jafna dýrar enda rúmlega 20 vísindamenn að störfum um borð og álíka margir í áhöfn. „Olíuleitin er á algjörum útsöluprís vegna þess að olíuleit hefur minnkað um allt að 80% út af verðlækkun á olíu. Þannig höfum við notið afskaplega góðs af því að það hafi orðið þessi samdráttur alþjóðlega. Við höfum getað fengið betri aðila til samstarfs við okkur og á verði sem er allt að 80% afsláttur frá því sem við höfðum áætlað.“

Íslendingar háðir olíu

Hann telur ekki óeðlilegt að Íslendingar leiti að og nýti olíulindir enda háðir jarðefnaeldsneyti. „Þó við fyndum þarna mjög stóra olíulind sem væri yfir milljarður tunna. Þá myndi hún varla duga til þess að búa til þotueldsneyti fyrir Keflavíkurflugvöll lengur en kannski í tíu ár. Það kemur líka asfalt og dísil og annað en það sem hefur tengt Ísland við umheiminn hefur verið olía; skipakomur og flug hafa verið algjörlega háðar því,“ segir Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Eykon.