
Olíufélög fá styrki fyrir rafbílavæðingu
Hæsta styrkinn fékk Orka náttúrunnar, 57 milljónir króna og er gert ráð fyrir að á fyrsta ári verkefnisins muni fyrirtækið nýta 35 milljónir króna til að setja upp níu hraðhleðslustöðvar og eina hefðbundna hleðslustöð. Í heildina er gert ráð að settar verði upp 43 hraðhleðslustöðvar og 63 hefðbundnar, en þar af verða 58 hefðbundnar stöðvar settar upp á síðasta árinu.
Meirihluti olíufélaga fékk styrk
Vistorka á Akureyri fékk 26 milljónir króna, Skeljungur fékk 20 milljónir króna, Olíuverzlun Íslands fékk tæpar 20 milljónir og N1 fékk 15 milljónir. Í heild setja þessi fyrirtæki upp 18 hraðhleðslustöðvar og 5 hefðbundnar hleðslustöðvar. Þar af er Vistorka með allar hefðbundnu stöðvarnar og 7 hraðhleðslustöðvar.
Sex sveitarfélög fengu styrki, Árborg, Garðabær, Hafnafjarðarbær, Mosfellsbær, Reykhólahreppur og Reykjavíkurborg. Flestar hleðslustöðvar verða settar upp í Reykjavíkurborg, eða 29 hefðbundnar stöðvar.
Að auki fékk sjálfseignarstofnun Austurbrú, sem meðal annars öll sveitarfélögin á Austurlandi stofnuðu, styrki fyrir 13 hefðbundnum hleðslustöðvum.
Hluti af sóknaráætlun í loftslagsmálum
Á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins kemur fram að verkefnið sé hluti af sóknaráætlun Íslands í loftlagsmálum í tengslum við Parísarsamkomulagið svokallaða. Með því sé gert átak í að efla innviði fyrir rafbíla á landsvísu til að tryggja aðgengi að samgöngumáta sem sé betri fyrir loftslagið.