Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ólíklegt að tölvuárás hafi smitað út frá sér

19.04.2018 - 13:49
Útvarpshúsið
 Mynd: RÚV
Erfitt er að greina áhrif árásarinnar sem gerð var á vefumsjónarkerfi ruv.is í gærkvöld. Árásin lýsti sér þannig að nokkrir hlekkir á síðunni vísuðu út fyrir vefsíðu RÚV og á vafasamar síður. Sérfræðingur í hugbúnaðarþróun telur að áætlun tölvuþrjótanna hafi verið að falsa umferð á þessar síður.

„Síðurnar buðu upp á niðurhal af einhverju tagi en öryggisreglur til dæmis í iPhone heimila ekki að forritum sé halað niður og sett upp án þess að notendur gefi fyrir því ákveðnar heimildir. Það er því afar ólíklegt að þeir sem færðust af ruv.is yfir á vafasamar síður hafi fengið vírus við það, en ekki útilokað,“ segir Helgi Páll Þórisson, sérfræðingur í hugbúnaðarþróun RÚV. Hann telur að erfitt sé að greina áhrifin af þessum síðum en það virðist vera að fyrst og fremst hafi ætlunin verið að dreifa umferðinni annað en á rúv.is.

„Fólk getur farið í ákveðnar varúðunarráðstafanir með því að hreinsa vafrasöguna og kökurnar í vafranum. Það er ein af leiðunum til að tryggja að svona óværur lifi ekki þar áfram,“ segir Helgi.

Vefsíða RÚV lá niðri í á fjórðu klukkustund í kjölfar árásarinnar. Þegar tryggt var að árásinni hefði verið hrundið var vefurinn opnaður á ný. 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV