Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ólíklegt að sveitarfélögum fækki mikið í bráð

Mynd með færslu
 Mynd: Jónsson Jónsson Jónsson - Jóhannes Jóhannes Jóhannes
Þrátt fyrir sameiningarviðræður í flestum landshlutum er ólíklegt að sveitarfélögum fækki um meira en þrjú í náinni framtíð. Viðræður hafa víða siglt í strand vegna skorts á fjármagni. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir brýnt að ríkið geri meira til að liðka fyrir sameiningum, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga sé í dag dragbítur á sameiningar.

Rúmur helmingur með færri en þúsund íbúa

Á Íslandi eru 74 sveitarfélög og þau eru vitanlega misstór. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar telur fámennasta sveitarfélagið, Árneshreppur, 46 íbúa á meðan rúmlega 123 þúsund manns búa í fjölmennasta sveitarfélaginu, Reykjavík. Í sjö sveitarfélögum búa innan við hundrað manns og í 40 eru innan við þúsund íbúar. 

Á síðari hluta 19. aldar og fram undir miðja 20. öld fjölgaði sveitarfélögum talsvert. Flest voru þau 229 árið 1950 en tók síðan að fækka og það hratt, einkum í kringum aldamótin. Á tuttugu ára tímabili, frá 1990 til 2010, fækkaði sveitarfélögum úr 204 niður í 76. Síðan þá hefur hægst á þróuninni og einungis örfáar sameiningar átt sér stað á allra síðustu árum. 

Þrátt fyrir að dregið hafi úr sameiningum þá hefur samstarf sveitarfélaga aukist og það í samræmi við aukin verkefni sem færð hafa verið til þeirra frá ríkinu. Dæmi um þetta er flutningur á þjónustu við fatlað fólk árið 2011, sem byggði á því að sveitarfélögin sinntu verkefninu í sameiningu á afmörkuðum þjónustusvæðum, þvert á byggðakjarna. Jafnframt hafa sveitarfélög átt í samstarfi um almenningssamgöngur, sóknaráætlanir landshluta og fleiri verkefni. 

Stór sveitarfélög geti veitt hagkvæmari þjónustu

Á undanförnum árum hefur því ítrekað verið haldið fram að nauðsynlegt sé að fækka sveitarfélögum til þess að bæta afkomu þeirra og efla sveitarstjórnarstigið.

Samkvæmt grein stjórnmálafræðingsins Grétars Þórs Eyþórssonar hafa helstu rök fyrir sameiningum verið þau að stærri sveitarfélög geti frekar veitt íbúum góða þjónustu á hagkvæman hátt, lagað sig að breytingum og tekið á sig stærri verkefni. Á hinn bóginn hafi veigamestu röksemdir gegn sameiningum tengst lýðræði, að íbúar í litlum sveitarfélögum verði út undan þegar þau sameinast stærri sveitarfélögum. 

Fámennustu sveitarfélög á Norðurlöndunum

Í skýrslu Samtaka atvinnulífsins í fyrra var lagt til að fækka sveitarfélögum niður í níu. Þannig skapist svigrúm til að lækka stjórnsýslukostnað, auka skilvirkni og færa fleiri verkefni til sveitarfélaga og gera þau þar með líkari sveitarfélögum í öðrum Norðurlöndum. 

Í nýrri skýrslu á vegum Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins er mælt með því að stækka sveitarfélög og festa lágmarksíbúafjölda í lög. Lágmarksíbúafjöldi verði 250 manns eftir rúm tvö ár, hækki í þrepum og verði 1.000 manns árið 2026. Þannig er stefnt að því að fækka sveitarfélögum um rúman helming. Lagt er til að hluti af tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði nýttur til að liðka fyrir sameiningum, þannig að fjárhagsstaða komi ekki í veg fyrir sameiningar. 

Leggjast gegn lögboðnum sameiningum

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, er jákvæður gagnvart tillögunum og telur að sveitarfélög með færri en 250 íbúa geti ekki sinnt skyldum sínum á fullnægjandi hátt, en 14 sveitarfélög eru í þeim flokki. Forsvarsmenn nokkurra af minnstu sveitarfélögum landsins leggjast þó alfarið gegn því að sveitarfélög verði knúin til sameininga með lögum og benda á að fjárhagsstaða minni sveitarfélaga sé oft ekki verri en þeirra stærri

Í flestum landshlutum hefur á síðustu árum verið rætt um sameiningar. Sums staðar eru þær á lokametrunum, annars staðar eru þær í biðstöðu og í einhverjum tilvikum hefur slitnað upp úr þeim. 

Beðið eftir Skagabyggð

Á Norðurlandi vestra hafa verið þreifingar um sameiningu á allra síðustu mánuðum. Sveitarfélögin Skagafjörður og Skagabyggð hófu formlegar sameiningarviðræður í sumar, en lítill áhugi er fyrir því að sameina öll sveitarfélögin á svæðinu.

Á dögunum var ákveðið að kanna möguleikann á sameiningu í Austur-Húnavatnssýslu, en þar eru Blönduós, Húnavatnshreppur, Skagaströnd og Skagabyggð. Allar sveitarstjórnir hafa samþykkt að hefja viðræðurnar, nema Skagabyggð, sem á eftir að taka afstöðu til þess hvort eigi að halda áfram viðræðum við Skagafjörð eða snúa sér að Austursýslunni. Talið er að formlegar viðræður gætu hafist fljótlega.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS

Árangurslausar þreifingar í Eyjafirði

Í desember á síðasta ári samþykkti bæjarstjórn Akureyrarbæjar að kanna möguleika á sameiningu allra sjö sveitarfélaganna við Eyjafjörð. Undirtektirnar voru dræmar, en Grýtubakkahreppur, Hörgársveit og Eyjafjarðarsveit töldu ekki tímabært að skoða málið. Ástæðan var meðal annars ótti við að draga kynni úr lýðræði og efasemdir um að sameining myndi leiða til betri rekstrar.

„Oftast er hvötin að þessu sú að menn álíta að það sé hagræðing, peningalegar ástæður, og við höfum einfaldlega efasemdir um að það myndi reynast svo," sagði Jón Stefánsson, oddviti sveitarstjórnar í Eyjafjarðarsveit. Forsvarsmenn Dalvíkurbyggðar og Svalbarðsstrandarhrepps tóku ekki eins illa í hugmyndina, en lítið hefur gerst síðan og ólíklegt að sameiningar í Eyjafirði verði að veruleika á næstu árum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Atkvæðagreiðsla á Vesturlandi í lok árs

Nú stendur yfir greining á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaga á Snæfellsnesi: Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar. Sameinað sveitarfélag myndi telja um 2.100 íbúa.

Grundarfjörður Vesturland
 Grundarfjörður Vesturland
 Mynd: Jóhannes Jónsson Jóhannes Jó

Tæplega 50 íbúar í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi skoruðu á hreppsnefnd sveitarfélagsins að taka þátt í viðræðunum. Því var hafnað, en í kjölfarið var þó ákveðið að Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi gerðu samantekt á sameiningarkostum sem eru í stöðunni fyrir sveitarfélagið. Stærsta sveitarfélagið á svæðinu, Snæfellsbær, hefur heldur ekki talið ástæðu til að vera með í sameiningarviðræðum að svo stöddu.

Bæjarstjórinn í Stykkishólmi hefur sagt að hann vonist til þess að Snæfellsnes verði á endanum eitt sveitarfélag, en fyrsta skref sé að sameinast Helgafellssveit og Grundarfirði. Stefnt er að því að íbúar greiði atkvæði um sameininguna í lok árs.

Fjármagn frá ríkinu forsenda sameininga á Vestfjörðum

Í byrjun þessa árs samþykkti bæjarráð Ísafjarðarbæjar að óska eftir samstarfi við Súðavíkurhrepp um að kanna kosti og galla sameiningar. Átti að sækja um fjárframlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að framkvæma könnunina. Hins vegar var aldrei sótt um styrkinn og hafa engar frekari viðræður átt sér stað enn sem komið er.

Eyri, Heilsugæsla, HVEST, Ísafjörður, Öldrunarheimili, Rúv myndir, Sjúkrahús
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS

Sunnar á Vestfjörðum hefur einnig verið rætt um mögulegar sameiningar, einkum Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps. Talsvert samstarf er á milli sveitarfélaganna og er félagsþjónusta til að mynda rekin sameiginlega. Indriði Indriðason, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps, segir í samtali við fréttastofu að enn hafi ekki verið ráðist í könnun eða formlegar viðræður um sameiningu. Fyrir lítið sveitarfélag sé sameiningarferli kostnaðarsamt og ekki verði ráðist í það nema ríkið verji til þess fjármunum. Nefnir hann Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í því samhengi og segir að úthlutun úr honum sé forsenda þess að hægt sé að skoða málið. Þó hafa sveitarfélögin ekki sótt um slíkan styrk.

Dregið úr áhuga á Suðurlandi

Fimmtán sveitarfélög eru á Suðurlandi og eru skráðir íbúar tæplega 27 þúsund. Í fyrra hófst formleg könnun á kostum og göllum sameiningar í Árnessýslu. Þau sveitarfélög sem tóku þátt voru Árborg, Ölfus, Hveragerði, Grímsnes- og Grafningshreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur og Flóahreppur. Bláskógabyggð var eina sveitarfélagið í Árnessýslu sem kaus að sitja hjá. Sameinað sveitarfélag yrði eitt það fjölmennasta á landinu með ríflega 15 þúsund íbúa.

Hins vegar virðist sem dregið hafi úr vilja til að sameinast. Bæjarstjórinn í Hveragerði sagði í fréttum RÚV á dögunum að nú gangi vel hjá sveitarfélögum á Suðurlandi, uppgangur sé í þjóðfélaginu og sveitarfélögin í örum vexti. Því hafi áhugi á sameiningu dvínað og „gleðin sé farin úr verkefninu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þó er ekki útilokað að það verði af annars konar sameiningum á Suðurlandi, en til greina kemur að sameina sveitarfélög í Rangárvallasýslu. Sveitarstjórar í Rangárþingi ytra og Rangárþingi eystra sögðu nýlega í fréttum Stöðvar 2 að þeir væru hlynntir því að sameina sveitarfélögin. Ef þau rynnu í eitt yrði til 3.500 manna sveitarfélag.

Garður og Sandgerði gætu sameinast á næsta ári

Reykjanesbær varð til við sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna árið 1994. Síðan hafa reglulega komið fram tillögur um frekari sameiningar á Suðurnesjum og telur bæjarstjórinn í Reykjanesbæ að æskilegt væri að búa til eitt sveitarfélag á svæðinu.

Slíkt er þó ekki á teikniborðinu, en líklegt er að Garður og Sandgerði sameinist í náinni framtíð. Viðræður um það hafa staðið undanfarna mánuði og verður íbúakosning um sameiningu þann 11. nóvember næstkomandi. Verði meirihluti hlynntur sameiningu í báðum sveitarfélögum verður kosin ný bæjarstjórn fyrir nýtt sveitarfélag næsta vor. Sameinað sveitarfélag myndi telja um 3.200 íbúa.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Óskýr skilaboð frá ríkisvaldinu

Í fyrra hófust viðræður um sameiningu Djúpavogshrepps, Hornafjarðar og Skaftárhrepps. Þetta gæti orðið langvíðfemasta sveitarfélag landsins, eða 14.359 ferkílómetrar, og myndi ná allt frá Mýrdalssandi í vestri og austur á Berufjarðarströnd. Íbúar sameinaðs sveitarfélags yrðu um 3.100, en stærstu byggðakjarnarnir eru Djúpivogur, Höfn og Kirkjubæjarklaustur.

Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps, segir að viðræðurnar séu í biðstöðu vegna óskýrra skilaboða frá ríkisvaldinu um fjármögnun. „Það liggja fyrir ákveðin framlög frá Jöfnunarsjóðnum sem kemur að því að sauma þetta saman stjórnsýslulega, en allt annað er strand vegna stjórnmálaástandsins í landinu,“ segir Andrés og bætir við að raunverulegan vilja skorti hjá stjórnvöldum til að koma á sameiningum. „Þetta er stórmál þegar um jafn víðfemt og stórt svæði er að ræða og það er ekki nokkur leið að matreiða þetta fyrir íbúa án þess að geta sýnt að þetta muni skila einhverju,“ segir hann. 

Mynd með færslu
 Mynd: www.djupivogur.is - RÚV

Vill setja lágmarksíbúafjölda í lög

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir brýnt að sameina sveitarfélög og tekur undir tillögur um lágmarksíbúafjölda, sem er að finna í nýrri skýrslu um málið. Í skýrslunni er ekki mælt með því að íbúar fái að kjósa um sameiningar, sem er í ósamræmi við núverandi stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga. „Mín tilfinning er sú að þetta gæti breyst á næsta landsþingi sambandsins haustið 2018,“ segir Halldór.

Færst hafi í vöxt að sveitarstjórnarfólk vilji setja íbúafjölda í lög, frekar en að kjósa, vegna þess að kosningar um málið ýti undir klofning og ósætti í sveitarfélögunum. „Ef Grænland getur verið með 8.000 íbúa lágmark þá hljótum við að geta verið með 250 eða 500 íbúa lágmark,“ segir Halldór. 

Mynd með færslu
Halldór Halldórsson. Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink

Hefði átt að flytja verkefnin beint til sveitarfélaga

Halldór bendir á að færsla á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga stuðli að sameiningum. Þegar sveitarfélög hafi tekið yfir rekstur grunnskóla hafi sum þeirra neyðst til að sameinast, en sama hafi ekki gerst þegar þjónusta við aldraða og fatlaða var flutt á sveitarstjórnarstigið, enda var ákveðið að sveitarfélög ynnu saman að verkefnunum í byggðasamlögum. „Ég held það hafi verið mistök. Ef þetta hefði bara verið flutt til sveitarfélaganna beint, eins og grunnskólinn, en ekki til byggðasamlaga, þá hefðum við séð fleiri sameiningar,“ segir Halldór. 

Jöfnunarsjóðurinn dragbítur á sameiningar

Ljóst er að fjárframlög ríkisvaldsins eru í mörgum tilvikum forsenda þess að sveitarfélög sameinist og hefur skortur á fjárframlögum tafið sameiningarviðræður sem eru þegar hafnar. Halldór segir lykilatriði að endurskoða hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. „Það hefur alltaf verið einhver stuðningur við sameiningar, en það þarf að gera betur,“ segir Halldór.

Í dag séu dæmi þess að sveitarfélög fái allt að 70 prósent tekna sinna úr sjóðnum, en Halldór segir æskilegra að þeir fjármunir séu nýttir til þess að hvetja þau til sameiningar, svo þau geti staðið undir sér. „Ég held að Jöfnunarsjóðurinn eigi ekki að vera dragbítur á sameiningar, hann er orðinn það núna, hann viðheldur sveitarfélögum sem eru í raun ekki starfshæf,“ segir Halldór.