Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ólíklegt að fargjöld verði áfram á undirverði

29.03.2019 - 10:31
Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista.is. - Mynd:  / 
Flugfargjöld hafa verið óvenju lág undanfarin misseri og er ólíklegt að svo verði áfram, að mati Kristjáns Sigurjónssonar, ferðablaðamanns og ritstjóra Túrista. Það sjáist á taprekstri WOW air síðustu ár og taprekstri Icelandair á síðasta ári.

Kristján segir líklegt að augu fólks verði á verðskrá Icelandair næstu mánuði, nú þegar WOW air sé gjaldþrota en að spurning sé hvort stjórnendur flugfélagsins láti það hafa áhrif. Rætt var við Kristján á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Telur fargjöldin hafa verið úr takti við raunveruleikann

„Við vonum auðvitað að fargjöldin haldist lág. Ég er ekki talsmaður hærri fargjalda en það er fyrirséð að við hefðum ekki getað haldið áfram á sömu braut. Við sjáum það að taprekstri Wow air, að það félag var ekki rekið með hagnaði síðustu ár heldur bara miklu tapi. Icelandair var rekið með miklu tapi í fyrra og það er náttúrulega ekki hægt að halda áfram þannig,“ segir Kristján. Það kosti meir en 10.000 krónur að fljúga til Tenerife og meir en 20.000 krónur að fljúga til New York. Fargjöldin hafi ekki verið í takti við raunveruleikann og það eigi ekki aðeins við hér á landi. 

„Fargjöldin hafa verið óvenju lág og við farþegar höfum verið að fljúga á kostnað eigendanna síðustu misseri og það heldur ólíklega áfram en samkeppnin er enn til staðar á mörgum flugleiðum en hún dregst vissulega saman,“ segir Kristján. 

Sumaráætlun flugfélaga hefst eftir nokkra daga

Búið var að spá því að erlendum ferðamönnum myndi ekki fjölga með sama hætti á næstunni og verið hefur undanfarin ár. Framboð af flugferðum hingað til lands minnkar svo með gjaldþroti Wow air. Flugfélagið var reyndar búið að draga seglin töluvert saman frá fyrra ári og flugáætlunin fyrir næsta sumar var helmingi umfangsminni en á síðasta ár. Kristján ólíklegt að erlend flugfélög bregðist við fyrir sumarið og fjölgi flugferðum hingað til lands. „Sumaráætlun flugfélaganna er að hefjast bara akkúrat núna um mánaðamótin og flugflotar fullnýttir, sennilega, miðað við það sem flugfélögin geta gert þannig að við sjáum að það er engin teikn á lofti um að það verði einhver sérstök viðbót, að það verði erlend flugfélög sem komi óvænt inn á markaðinn núna.“

Þegar Air Berlin varð gjaldþrota árið 2017 minnkaði flugumferð þar í borg töluvert og sömu sögu er að segja í Barselóna árið 2012 þegar Spanair hætti starfsemi. Í báðum tilvikum hafi liðið nokkrir mánuðir þar til flugferð tók við sér á ný.